138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar það atriði að þetta standist stjórnarskrá ítreka ég að þar sé um vafa að ræða sem hv. iðnaðarnefnd verður að fara yfir í starfi sínu til þess að komast að niðurstöðu. Við getum alla vega sagt að þetta sé á gráu svæði vegna þess að hér er stjórnvöldum réttur ákveðinn matseðill sem þau geta valið af í hverju tilviki. Ef það er á annað borð þannig að stjórnvöld telji viðkomandi verkefni uppfylla skilyrðin fyrir því að fá ívilnun þá geta þau valið af matseðli, t.d. í sambandi við skattamálin, tíu mismunandi leiðir til að koma til móts við fyrirtæki varðandi skattalegar ívilnanir. Þau hafa að því er mér virðist, miðað við lagatextann, töluvert svigrúm til matskenndra ákvarðana í því sambandi.

Það gengur gegn þeirri grundvallarhugsun, t.d. í sambandi við skattamál, að skattlagning í landinu eigi að vera lögbundin, að allir í sömu stöðu lúti sömu skattareglum og öðru þess háttar. Ég held að þessi matseðilsaðferð sem hér er valin, sérstaklega í 9. gr., sé nokkuð hæpin út frá túlkun stjórnarskrárinnar. Ég er ekki í aðstöðu til að kveða upp úr um þetta en ég tel að slíkur vafi sé að hv. iðnaðarnefnd verði að leggja í nokkra vinnu við að komast að niðurstöðu í þeim efnum.