138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

Íslandsstofa.

158. mál
[22:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir framsöguna og tek undir orð hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um að það hvernig staðið var að þessu máli var alveg til fyrirmyndar. Ber að þakka formanni og varaformanni nefndarinnar fyrir það.

Það að fulltrúar Framsóknarflokksins skuli ekki vera á frumvarpinu hefur ekkert með það að gera að við séum ósáttir við það eða eitthvað slíkt, heldur var einfaldlega enginn fulltrúi okkar á þessum fundi.

Mig langar að koma aðeins inn á örfá atriði um Íslandsstofu. Eins og fram kom hjá hv. flutningsmanni á eftir að skilgreina ákveðna hluti, eins og hlutverk aðalfundar. Er það vitanlega nokkuð sem verður gert. Það er kannski eðlilegt í ljósi þess hvernig það kemur til að þessi leið er farin en engu að síður er það eftir og þarf vitanlega að gera.

Ég hef smááhyggjur af þætti Fjárfestingarstofu í — ég nota þetta orð með góðum formerkjum — Íslandsstofu-bixinu. Mér gengur illa að finna orðin, frú forseti, í kvöld, og biðst afsökunar. Í 2. gr., d-lið, stendur að Íslandsstofa eigi „að upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál“. Síðan kemur liður 5 í 5. gr. og ég tek fram að upptalningin er óbreytt frá lögum um Útflutningsráð þar sem fjallað er um fjárfestingar. Þetta er óbreytt. Það breytir hins vegar ekki því að ég velti fyrir mér hvort við þurfum síðar — ég legg ekki til að þetta mál verði tafið neitt í þinginu, heldur að við verðum að setjast yfir hlutverk og þátt Fjárfestingarstofu og marka henni, held ég, skýrari lög og reglur. Þessi stofnun okkar er að vinna mikið og gott starf sem er að mínu viti nauðsynlegt að efla. Þar af leiðandi held ég að við ættum að skoða það á næsta þingi, það er væntanlega ekki tækifæri til þess núna, að fara yfir lög og reglur er lúta þessu. Þetta hefur engin áhrif á það að ég mun styðja þetta frumvarp og fylgja því eftir, að sjálfsögðu, en ég vil bara koma því að að ég tel rétt að fara yfir þennan þátt þegar tækifæri gefst til, þ.e. á næsta þingi.

Að öðru leyti hef ég ekki neinar athugasemdir við þetta eins og það lítur út í dag, þetta hefur tekið miklum framförum og er ágætt að ljúka þessu því að þetta hefur í sjálfu sér staðið býsna lengi til.