138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

iðnaðarmálagjald.

[12:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í gærmorgun felldi Mannréttindadómstóll Evrópu dóm um að lögbundin innheimta á iðnaðarmálagjaldi bryti mannréttindasáttmála Evrópu sem hv. Alþingi hefur lögfest. Hæstiréttur hefur dæmt í sama máli að innheimtan væri í lagi. Reyndar var einn hæstaréttardómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, á öndverðum meiði við aðra dómara en nú hefur sem sagt Mannréttindadómstóllinn kveðið upp úr um að þetta brjóti mannréttindi.

Í gær ræddi ég þetta á hinu háa Alþingi og varð ekki mikil umræða. Það tók enginn þátt í henni fyrir utan mig. Öðruvísi mér áður brá, frú forseti, því að margir þingmenn hafa sýnt mannréttindum mikinn áhuga í gegnum tíðina, en það getur vel verið að það breytist og menn fari að sýna málinu áhuga.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra sem yfirmann ríkisstjórnarinnar og verkstjóra:

1. Þarf ekki að afnema lög um innheimtu iðnaðarmálagjalds sem fyrst og hætta að innheimta gjaldið?

2. Þarf ekki að bjóða upp á endurgreiðslu gjaldsins innan fyrningarfrests? Um hvaða fjárhæð gæti þar verið að ræða? Auðvitað mun einhver áfram vilja borga þetta gjald og alla tíð en aðrir munu vilja fá endurgreitt, sérstaklega í þeirri kreppu sem ríkir í dag.

3. Þarf ekki að afnema önnur lög sem skylda ríkið til að innheimta félagsgjöld til ýmissa félaga, eins og búnaðargjald, fiskiræktargjald, 1%gjald af tölvum til STEF og síðast en ekki síst skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til lögboðins stéttarfélags sem er án hámarks og er fyrir utan það að brjóta félagaréttindi stjórnarskrár framsal á skattlagningu og ákvörðun skatts?

Ég vil fá skýr svör frá hæstv. forsætisráðherra sem ég veit að hefur áhuga á að halda við mannréttindum í landinu og standa vörð um stjórnarskrána.