138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

iðnaðarmálagjald.

[12:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem voru greinargóð nema þetta síðasta.

Ég get ekki séð af hverju í ósköpunum menn þurfa að borga búnaðargjald sem er sett á með nákvæmlega sama hætti. Ég get ekki séð af hverju í ósköpunum 1% gjald fari yfir til STEF þegar ég kaupi mér tölvu. Mestallur hugbúnaðurinn í tölvunni er ljósmyndir, sem ég hef tekið sjálfur og á höfundarrétt á og fæ ekkert greitt úr STEF, og forrit sem ég hef keypt. Höfundar forrita fá ekki greitt úr STEF. Þetta er bara nákvæmlega það sama og ég skora á hæstv. forsætisráðherra að standa nú vörð um mannréttindin og taka öll þessi gjöld til endurskoðunar með opnum hug því að ég hef grun um að þau brjóti með nákvæmlega sama hætti stjórnarskrána og mannréttindaákvæði og iðnaðarmálagjaldið gerir.