138. löggjafarþing — 114. fundur,  28. apr. 2010.

stofnfé í eigu sveitarfélaga.

472. mál
[13:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunni að öðru leyti. Það eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi sem hæstv. ráðherra flytur okkur hér. Hann greinir okkur frá því að þrjú sveitarfélög eru í þeirri stöðu vegna hruns eins sparisjóðsins að þau tapa sem svarar 30–40% af skatttekjum sínum. Það er mikið áfall. Fram hjá þessu máli getur ráðherra sveitarstjórnarmála ekki horft. Hann getur ekki leyft sér að horfa á þetta og bíða eftir því að einhver sérstök viðbrögð komi af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga. Þessi mál hafa legið fyrir mjög lengi. Ríkisstjórnin lagði fram frumvarp og fékk það samþykkt á síðastliðnu sumri. Það fól það í sér að veitt var heimild til þess að færa niður stofnfé sparisjóðanna. Það lá þegar í loftinu að af því yrðu miklar afleiðingar fyrir sveitarfélögin. Eigi veldur sá er varar.

Ég vakti athygli á þessu 9. júlí síðastliðinn. Ég kallaði eftir viðbrögðum hæstv. samgönguráðherra. Þau voru engin. Ég spurði hvort samgönguráðuneytið væri ekki að hyggja að þessu máli, því var ekki svarað. Nú liggur það hins vegar fyrir að ráðuneytið hefur ekki verið að huga að þessum málum, það hyggst ekki hafa frumkvæði að þessu. Ég hlýt að gagnrýna þetta. Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að ráðuneytið verður að hafa af því bein afskipti og hafa frumkvæði að því. Nú er ekki allt upp talið. Það liggur fyrir að það á að reyna að bjarga þeim sparisjóðum sem eftir standa. Það mun hafa það í för með sér að gildandi lögum að stofnfé í þessum sparisjóðum verður fært mjög mikið niður, um 90–95%. Fleiri sveitarfélög eiga eftir að bætast í hópinn.

Ég heiti á hæstv. samgönguráðherra að snúa við blaðinu og hefja þegar viðræður við sveitarstjórnirnar og sérstaklega Samband ísl. sveitarfélaga til þess að hægt sé að reyna að bregðast við. Menn geta ekki sofið svona á verðinum. Það er búið að vara við þessu. Nú liggur þetta (Forseti hringir.) fyrir. Það blasir við hvaða afleiðingar verða í öðrum sveitarfélögum. Hæstv. ráðherra verður að bretta (Forseti hringir.) upp ermarnar.