138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. þingmanns sem oft hefur rætt við mig um samgöngumál og sérstaklega á Vestfjörðum, enda á hann kyn til að hugsa vel um Vestfirði og samgöngumál þar: Já, það stendur til og þá sem allra fyrst að komast í áframhaldandi uppbyggingu og vegavinnu hvort sem það er á Dynjandisheiði, í Dýrafjarðargöngum eða á sunnanverðum Vestfjörðum.

Það er alveg hárrétt, ég hef margoft sagt það, þetta er sá landshluti sem býr við hvað verst vegasamband á Íslandi. Ég tel að það sé sett inn í þessa áætlun töluvert mikið af peningum en vek athygli á því sem ég sagði hér áðan að ef við komumst í stórframkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu verður hægt að setja meira fé í önnur kjördæmi. Norðvesturkjördæmi er þar efst á blaði. Sérstaklega eru það vegaframkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru fyrsti áfangi í þessari „fernu“, þ.e. Barðaströnd, Múlasveit, Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng.

Virðulegi forseti. Hér er fyrst og fremst lögð áhersla á sunnanverða Vestfirði og Dýrafjarðargöng ekki slegin af heldur frestað eins og öðrum framkvæmdum í þessari áætlun. Þetta eru allt saman brýnar og miklar framkvæmdir og ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast svo oft á þær sem hann hefur gert.