138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[11:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara til að bæta við það sem við ræddum áðan um sunnanverða Vestfirði, Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng, þetta er framkvæmd sem kostar 20–22 milljarða kr. með núgildandi verðlagi. Við þurfum að raða þessu svolítið niður eftir því.

Ég hef átt ágætisfundi með sveitarstjórnum á sunnanverðum Vestfjörðum. Íbúafundur verður þar á næstunni og ég hvet þingmenn kjördæmisins til að koma á fundinn þar sem við stillum upp þeim kostum sem eru eftir hæstaréttardóm vegna framkvæmda í Barðastrandarsýslu og fleira. Það eru ákveðnir valkostir sem stilla þarf upp.

Varðandi hitt sem hv. þingmaður ræðir um, vegtolla, er það sannarlega rétt, vegfarendur greiða mikið í dag. Þessu hefur líka verið stillt upp sem valkostum, við höfum kannski tvo valkosti með Suðurlandsveg, að taka hann á þremur árum austur fyrir Selfoss með nýrri Ölfusárbrú eða gera það með hefðbundnum framkvæmdum sem gætu þýtt 600 til 700–800 millj. kr. á ári og framkvæmdin kostar 16 milljarða þannig að við sjáum hvað það mundi taka langan tíma.

Ég hvet til þess að málið verði rætt, m.a. í samgöngunefnd, og geri það líka í þessari áætlun, (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er umræða sem við Íslendingar eigum að leyfa okkur að taka og ekki vera hrædd við hana. Það fylgja þessu kostir en það fylgja þessu líka ókostir.