138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég kom inn á þetta vegna þess að það hefur verið til umræðu að slík tækni byði upp á þetta í framtíðinni. Ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvort þetta sé það sem koma skal og við eigum að taka upp. Ég tel að persónuþátturinn sé einn veigamikill þáttur sem við þurfum að skoða gagngert, hvort hægt sé að hafa þetta með þeim hætti að ekki sé greinanlegt hver viðkomandi er, að því sé eytt jafnóðum, en mér finnst þetta vera tækni sem við eigum að skoða af fullri alvöru. En hvort þetta verður að veruleika og hvort við munum sætta okkur við að þetta verði rekjanlegt persónulega á eftir að koma í ljós, og líka hvort hægt er að eyða þeirri greiningu eins og gert er varðandi ýmsa gagnasöfnun í heilbrigðiskerfinu að þá eigi það sama við að gögn séu eyðanleg eða ekki persónurekjanleg.