138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[13:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sé reyndar ekki hvernig hægt er að gera þetta án þess að það sé persónugreinanlegt þar sem þetta hlýtur að vera skráð á eiganda bílsins og eigandi bílsins er skráður alls staðar. Ef umræddur aðili á að greiða miðað við það hvar hann ekur, hvenær hann ekur, á hvaða vegi o.s.frv. hlýtur það að rekjast beint til bílsins og þar með er hægt að rekja ferðir hvers og eins einstaklings miðað við númer bílsins og hvert sá bíll fer, óháð því kannski hver situr undir stýri. En ég þakka hv. þingmanni einlægt svar, hún er ekki búin að gera upp hug sinn. Það kemur svo bara í ljós hvað af þessu verður.