138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[14:37]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í örstuttu máli vil ég taka undir með hv. þingmanni um aðstöðu fyrir smábáta í Landeyjahöfn. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að slík aðstaða verði fyrir hendi með tilliti til öryggissjónarmiða og einfaldlega til að koma til móts við örugglega hundruð óska heimamanna og fleiri um að sigla þarna á milli. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa í för með sér tekjutap fyrir rekstraraðila ferjunnar, hafi menn áhyggjur af því. Ég hygg að menn hafi verið að ræða um gjaldtöku og það er mjög einfalt að setja upp einhvers konar gjaldtökukerfi fyrir umferð um höfnina þannig að það raski ekki tekjumöguleikum þeirra sem munu taka að sér að reka þá ferju sem þarna þarf að fara fram og til baka. Það er reyndar sannfæring þess sem hér stendur að í fyllingu tímans, eftir einhverja áratugi, verði risinn byggðakjarni í kringum Landeyjahöfn og að sá byggðakjarni muni tilheyra sveitarfélagi sem bæði Vestmannaeyjabær og Rangárþing eystra munu tilheyra. Mannvirki á borð við Landeyjahöfn eru einfaldlega þess eðlis að í kringum þau mun skapast líf, atvinna og fólk. Þarna mun fólk vilja eiga heima í framtíðinni. Ég segi þetta bara fyrir þingtíðindin.