138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[13:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 44/2002, um geislavarnir, með síðari breytingum, en frumvarpið er að finna á þskj. nr. 933.

Með frumvarpinu er lagt til að einstaklingum yngri en 18 ára verði óheimilt að nota sólarlampa eða ljósabekki eins og rætt er um í daglegu tali. Bannið er sett á grundvelli heilbrigðissjónarmiða og í ljósi þess að útfjólublá geislun frá sólarlömpum er nú flokkuð sem krabbameinsvaldur. Banninu er ekki ætlað að koma í veg fyrir að sólarlampar séu notaðir að læknisráði.

Útfjólublá geislun eykur marktækt líkur á húðkrabbameinum. Það eru börn og ungmenni sem eru viðkvæmust fyrir henni. Þeir sem sólbrenna ungir eiga frekar á hættu að fá illkynja sortuæxli síðar á ævinni, en slík æxli eru talin alvarlegasta gerð húðkrabbameina. Samkvæmt alþjóðlega viðurkenndri meginreglu í geislavörnum er notkun geislunar réttlætanleg að því gefnu að gagn vegi þyngra en skaði. Ráðleggingar fagaðila sýna að notkun barna og ungmenna á ljósabekkjum sé ekki réttlætanleg í þessu tilliti.

Á árinu 2005 ráðlögðu norrænar geislavarnastofnanir ungmennum undir 18 ára aldri og fólki með ljósa húð að nota ekki ljósabekki. Í sameiginlegri yfirlýsingu fjögurra geislavarnastofnana, Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og Íslands, frá 11. nóvember 2009, var lagt til að 18 ára aldurstakmark yrði sett varðandi notkun ljósabekkja. Þá tilkynnti Alþjóðlega rannsóknarstofnunin í krabbameinsfræðum í Lyon, sem starfar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, þann 29. júlí 2009, að útfjólublá geislun væri nú flokkuð sem krabbameinsvaldur. Áður hafði hún verið flokkuð sem líklegur krabbameinsvaldur þannig að um var að ræða endurmat og hættan var metin meiri en áður. Í tilkynningu stofnunarinnar er sérstaklega tekið fram að hætta á húðkrabbameini eykst verulega ef notkun ljósabekkja hefst fyrir 30 ára aldur.

Í samræmi við þetta lögðu Geislavarnir ríkisins það til við heilbrigðisráðuneytið síðastliðið haust, eftir fundinn 11. nóvember 2009, að það beitti sér fyrir innleiðingu 18 ára aldurstakmarks vegna notkunar sólarlampa. Aldurstakmarkinu er ætlað að taka til notkunar sólarlampa á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, en það eru til að mynda sólbaðsstofur, heilsuræktarstöðvar og íþróttamiðstöðvar. Samstarfshópur um útfjólubláa geislun, sem í eru fulltrúar Geislavarna ríkisins, Félags íslenskra húðlækna, Krabbameinsfélagsins, Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar, hefur stutt þessa tillögu eindregið.

Eftir því sem næst verður komist, frú forseti, hefur ekkert Norðurlandanna enn innleitt reglur um 18 ára aldurstakmark við notkun ljósabekkja. Í Finnlandi mun hins vegar unnið að frumvarpi um slíkt bann sem áformað er að verði lagt fyrir finnska þingið næsta haust og í Noregi er slík vinna einnig í undirbúningi.

Undanfarin ár hefur samstarfshópur um útfjólubláa geislun, sem fyrr er getið, staðið fyrir átaki sem beinist að fermingarbörnum og forráðamönnum þeirra. Því átaki hefur verið beint að hættunni sem fylgir því að ungt fólk noti ljósabekki og vakin athygli á því að börn og ungmenni eru næmari en aðrir fyrir skaðlegum áhrifum geislunar frá ljósabekkjum, en einnig frá sólinni. Í ár var farið sjöunda árið í röð í fræðsluherferð undir slagorðinu „Hættan er ljós“. Þetta átak hefur að vissu leyti tekist með ágætum og má til að mynda marka af því að í vor voru engin fermingartilboð auglýst á sólbaðsstofum. En það má einnig sjá þess merki í almennt breyttu viðhorfi til ljósabekkjanotkunar því að í nóvember á síðasta ári lét Lýðheilsustofnun gera könnun á viðhorfi til lagasetningar um bann við notkun 18 ára og yngri á ljósabekkjum og í ljós kom að rúmlega 72% aðspurðra voru fylgjandi slíkri lagasetningu.

Frú forseti. Tíðni húðkrabbameins hefur aukist mikið á síðustu áratugum. Mest hefur aukningin verið í tíðni svonefndra sortuæxla, sem eru eins og áður sagði alvarlegasta tegund húðkrabbameina og enn fremur algengasta tegund krabbameins hjá konum á aldrinum 15–34 ára.

Notkun ljósabekkja á Íslandi hefur minnkað undanfarin ár en minnst hefur dregið úr henni hjá yngstu aldurshópunum, sem þykir benda til þess, sem er svo sem þekkt, að erfitt sé að hafa langvarandi áhrif á lífsvenjur unglinga með kynningarstarfi og fræðslu. Við þessu þarf að sporna því að fram til þessa hafa leiðbeiningar Geislavarna ríkisins, um að börn 18 ára og yngri noti ekki ljósabekki, því miður ekki náð þessum tilætlaða árangri.

Frú forseti. Í ræðu minni hef ég gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Fram kemur í áliti fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis að það hefur ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Hér er um að ræða breytingu sem lögð er til á grundvelli heilbrigðissjónarmiða einna og ég tel mikilvægt að þetta frumvarp nái fram að ganga.

Ég vek athygli á 2. gr. frumvarpsins, sem er gildistökuákvæði en gert er ráð fyrir því að lög sem sett yrðu öðlist gildi 1 janúar 2011, í þeim tilgangi að þeir sem veita almenningi nú aðgang að sólarlömpum geti lagað sig að þeim breyttu reglum sem frumvarpið felur í sér, eins og segir í greinargerð.

Frú forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.