138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

opinberir háskólar.

579. mál
[16:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Nú eru rétt um tvö ár liðin síðan gildandi lög um opinbera háskóla tóku gildi. Í ljósi þeirrar reynslu sem er komin á framkvæmd laganna er lagt til að breytingar verði gerðar á tilteknum ákvæðum þeirra sem ég mun nú gera grein fyrir.

Í fyrsta lagi er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að áréttað verði sérstaklega það hlutverk opinberra háskóla að miðla fræðslu til almennings og veita samfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Þessi sjónarmið komu fram í skýringu við 3. gr. þess frumvarps sem varð að gildandi lögum og í skýringum við 3. gr. þessa frumvarps og í þessum tilgangi er því rétt að draga sérstaklega fram það hlutverk opinberra háskóla að sinna þörfum samfélagsins. Að öðru leyti er hlutverk þeirra það sama og annarra háskóla sem hafa fengið viðurkenningu samkvæmt lögum nr. 63/2006, um háskóla, en ég vil nefna það sérstaklega að þessi umræða er talsvert ríkjandi á hinum alþjóðlega vettvangi og tengist kannski þeirri kreppu sem við eigum í alþjóðlega. Á fundi um Bologna-ferlið, sem ég sat nú í marsmánuði, var það til að mynda mjög ríkt í umræðunni að skerpa yrði á hinu samfélagslega hlutverki háskóla og því gagni sem þeir eiga að gera hverju samfélagi þar sem þeir eru. Þetta á þá sérstaklega við um þá skóla sem teljast opinberir.

Í öðru lagi er í 4. gr. frumvarpsins lagt til að fulltrúum ráðherra í háskólaráði verði fækkað en á móti verði fulltrúum háskólasamfélagsins fjölgað. Þannig verði fulltrúi ráðherra í háskólaráði háskóla með færri en 5.000 nemendur einn og fulltrúar háskólasamfélagsins tveir, en í háskólaráðum háskóla með fleiri nemendur en 5.000 verði fulltrúar ráðherra tveir en fulltrúar háskólasamfélagsins þrír, og fulltrúar sem tilnefndir eru af fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði verði einnig þrír.

Ég tel að með þessu sé komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu við setningu laganna á Alþingi um mikilvægi þess að tryggja fræðaþekkingu og tengingu við stjórn opinberra háskóla. Enn fremur tel ég þetta mikilvægt skref í því að skjóta styrkari stoðum undir lýðræðisleg vinnubrögð háskólanna og draga um leið úr beinum áhrifum ráðherra á stjórn skólanna. Ég tel að það hafi verið fullvel í lagt í þeim lögum sem nú eru gildandi um fulltrúa ráðherra.

Í þriðja lagi er í 8. gr. frumvarpsins lögð til sú breyting að kjörtími fulltrúa nemenda á háskólaþingi lengist um eitt ár. Þetta kemur í kjölfar ábendingar frá stúdentaráði Háskóla Íslands sem benti á að kosningar til stúdentaráðs fari fram árlega, kosningar til háskólaráðs annað hvert ár, og hefur stúdentaráð vakið athygli á því óhagræði sem hlýst af því að þurfa að halda þrennar kosningar samtímis eins og gera þyrfti þetta ár að óbreyttri löggjöf þar sem kjósa þarf fulltrúa til háskólafundar, stúdentatráðs og háskólaráðs. Þetta þykir einnig hafa flækt kosningarnar fyrir hinum almenna nemanda sem gæti átt erfitt með að átta sig á þessu og ekki séu rök til þess að kjósa svo oft um fulltrúa á háskólaþingi sem fundar einungis tvisvar á ári. Það veiki jafnframt stöðu nemenda á fundinum ef þeir eru nýir árlega.

Ég vil nefna það sérstaklega að í greinargerð er talað um tvær fylkingar í stúdentaráði en þær eru auðvitað þrjár og ég vil biðjast velvirðingar á því.

Þá er í fjórða lagi lagt til í 11. gr. frumvarpsins að bætt verði við gildandi lög nýrri grein um endurmenntun opinberra háskóla. Í því samhengi er gert ráð fyrir að skýrari greinarmunur verði gerður á menntun sem fólgin er í endurmenntun og fræðslu til almennings annars vegar og hinni eiginlegu starfsemi háskóla að veita æðri menntun er leiðir til prófgráða á háskólastigi hins vegar. Í þessum tilgangi þykir rétt að skilgreina með sérstökum hætti hugtakið „endurmenntun“ en samkvæmt frumvarpinu telst endurmenntun annars vegar námskeið fyrir háskólamenntað fólk og á fagsviði þess og hins vegar viðbótarnám fyrir háskólamenntað fólk á þverfaglegum grunni sem miðar að skilgreindum námslokum eða prófgráðu. Skilgreining hugtaksins með þessum hætti hefur jafnframt þýðingu við nánari afmörkun á heimildum opinberra háskóla til gjaldtöku, skv. 2. mgr. 24. gr. laganna og nánar er lýst í skýringum við 11. og 12. gr. frumvarpsins. Með þessum breytingum er settur mjög ákveðinn rammi fyrir það meistaranám sem Háskóli Íslands hefur boðið upp á á þverfaglegum grunni undir formerkjum endurmenntunar en dæmi um slíkt væri t.d. MPM eða MBA-nám við HÍ.

Auk þess sem ég hef hér rakið eru í fimmta lagi lagðar til breytingar á 13., 17. og 21. gr. laganna sem lúta að stjórnsýslu við opinbera háskóla og eru m.a. settar fram með hliðsjón af ábendingum frá HÍ. Í því sambandi er lagt til að mögulegt verði að styrkja betur starfsemi skólaráðs eða sviða háskóla, m.a. með því að gera ráð fyrir að þar geti einnig setið fulltrúi opinberrar stofnunar sem er í mjög nánu samstarfi við háskóla um kennslu og þjálfun nemenda. Þetta á t.d. við um samvinnu Landspítala - háskólasjúkrahúss og heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Þá þykir rétt að tekin séu af tvímæli um það að veitingarvaldið vegna starfa háskólakennara og sérfræðinga liggi hjá háskólarektor en að forsetum fræðasviða og forstöðumönnum einstakra stofnana innan opinberra háskóla sé falið í umboði rektors að annast ráðningarmál þegar um tímabundna veitingu slíkra starfa er að ræða. Þessi breyting er að öðru leyti í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga um opinbera háskóla.

Loks er í þessu samhengi lagt til að stjórnsýsla hvers háskóla annist skipulag og framkvæmd prófa en með því er stuðlað að þverfræðilegri samvinnu og möguleikum nemenda til að stunda nám í fleiri en einum skóla og deildum sama háskóla auk þess sem slíkt fyrirkomulag ætti að gefa háskólum færi á hagræðingu við skipulagningu og nýtingu húsnæðis og búnaðar.

Loks er í ákvæði til bráðabirgða kveðið á um að þeir sem tilnefndir hafa verið í háskólaráð við gildistöku laganna sitji út tilnefningartíma sinn. Af því leiðir að í fyrsta sinn mun reyna á fyrirmæli 4. gr. um fækkun fulltrúa ráðherra í háskólaráði þegar tilnefningartími þeirra er liðinn. Skipunartími háskólaráðanna rennur út 30. september nk. Því er almennt gert ráð fyrir að breytingar á skipan komi þá til framkvæmda nema fulltrúar biðjist lausnar fyrr eða einhverjar breytingar verði sem kynnu að koma á óvart en í bráðabirgðaákvæðinu er gert ráð fyrir að hægt sé að láta breytinguna koma fyrr til framkvæmda. Í slíku tilviki yrði gert ráð fyrir að fyrst yrði fjölgað fulltrúum háskólasamfélagsins og síðar þeim fulltrúum sem eru tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins er enn fremur lögð til sú breyting að kjörtími fulltrúa nemenda á háskólafundi verði tvö ár eins og nánar er rakið í skýringu við 6. gr.

Ég hef þá gert grein fyrir þessu frumvarpi og legg til að því verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr.