138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um breytingar á barnaverndarlögum en það er sá málaflokkur sem er hvað viðkvæmastur í okkar samfélagi en jafnframt gríðarlega mikilvægur. Það er ekki síst mikilvægt að reglur og öll umgjörð í kringum þennan málaflokk séu skýrar og að menn séu meðvitaðir um hver tilgangur þeirra er.

Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frumvarp er komið fram og ég heiti því að umræðan og málsmeðferðin í félags- og tryggingamálanefnd mun verða ítarleg. Við munum beita okkur fyrir því öll sem þar erum að taka á þessu með ábyrgum hætti.

Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna sérstaklega og sem ég tel mikilvægt að við fjöllum um. Það eru í fyrsta lagi auknar heimildir fyrir barnaverndarnefndir til þess að eiga samstarf við aðra aðila sem koma að því að annast barn. Það er fjallað um það í 11. og 13. gr. frumvarpsins. Ég tel að það sé mjög mikilvægt nýmæli að barnaverndarnefnd getur ákveðið með úrskurði að láta aðilum í té upplýsingar um líðan barns og meðferð máls ef það er talið nauðsynlegt vegna hagsmuna barnsins. Ég tel að sé gríðarlega mikilvægt ákvæði til þess einmitt að tryggja það að öll umgjörðin sé í lagi og allir þeir aðilar sem þarna koma við sögu átti sig á því hver staðan er og að menn vinni saman að sama markmiðinu, en ekki hver í sínu horni.

Það hefur auðvitað verið reynt að vinna þetta svona en það er að sjálfsögðu í sumum tilvikum erfitt þar sem strangar trúnaðarreglur gilda um ýmis atriði. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvæg réttarbót og mikilvægt nýmæli.

Síðan er það tilkynningarskyldan sem jafnframt er fjallað um í 6.–8. gr. frumvarpsins. Þarna er í rauninni verið að styrkja ákvæðin, skýra hvað átt er við og hvað felst í tilkynningarskyldunni. Ég tel að þetta sé mikilvægt, við þurfum að fara vel yfir hvort þetta er fullnægjandi. Þarna er t.d. verið að styrkja ákvæði sem lúta að ófrískum konum en jafnframt er tekið að einhverju leyti á því sem kom í máli fram í máli hæstv. þm. Péturs Blöndals varðandi foreldra sem stunda ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu.

Það skiptir líka máli hvernig almenningur og við öll erum upplýst um innihald laganna. Ég vonast til þess að þegar þetta frumvarp verður afgreitt sem lög héðan frá Alþingi að farið verði í ágætiskynningu á því hvað felst í þessum ákvæðum frumvarpsins hvað varðar tilkynningarskyldu.

Frú forseti. Ég vil að lokum tala um það þegar mál flytjast á milli umdæma, þ.e. þegar barnaverndarnefnd hefur mál til meðferðar varðandi barn sem breytir lögheimili og málið flyst til annarrar barnaverndarnefndar. Þarna er hættan á því að mál falli svolítið á milli stafs og hurðar og að málin tefjist. Ef til vill er komið að ákvörðun í ákveðnu barnaverndarmáli þegar forsjáraðilinn ákveður að flytja á milli umdæma til þess að hugsanlega koma í veg fyrir að ákvörðun sé tekin.

Í núverandi kerfi er reynt að halda eins vel utan um þetta og hægt er, en við verðum að tryggja að lagagrundvöllurinn sé það skýr að hægt sé að halda áfram með mál nánast á fullum dampi þrátt fyrir að menn velji að flytja með barn milli umdæma. Þetta er atriði sem reynslan hefur sýnt að hefur stundum verið á gráu svæði og það hefur valdið ákveðnum erfiðleikum í starfi barnaverndarnefnda. En okkur í þinginu ber að tryggja að þetta ákvæði laganna sé nógu skýrt og það sé algjörlega ljóst að heimildir eru til staðar.

Frú forseti. Ég fagna því enn og aftur að þetta frumvarp er komið fram og hlakka til að takast á við það í nefndinni.