138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir framsögu hans. Við Íslendingar stöndum á miklum tímamótum eftir bankahrunið sem reið yfir. Þar voru margir stórir gerendur og er þeirra getið í rannsóknarskýrslunni sem flestir þingmenn hafa vonandi getað kynnt sér sem mest þeir mega.

Siðferði snýst um traust. Við þurfum traust til að endurreisa þjóðina á erlendum vettvangi. Við þurfum traust á ný til að geta tekið þátt í störfum á alþjóðavettvangi. Enn þá sitja þrír ráðherrar sem voru í hrunstjórninni í ríkisstjórn. Það eru þeir hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, það er Össur Skarphéðinsson, hæstv. utanríkisráðherra, og það er Kristján Möller, hæstv. samgönguráðherra. Ég hef lengi talað um að seta þessara ráðherra í ríkisstjórn endurreisi ekki traustið sem við þurfum á að halda. Stjórnvöld í hverju landi verða að sýna fram á að breytinga sé að vænta.

Nefndarálitið og lögin snúast um þátttakandann sem hér fær að fjárfesta á nýjan leik eftir að hafa farið frjálslega með traust og sjóði þjóðarinnar. Í skýrslunni er mikið fjallað um þennan aðila.. Enn hefur dómsmál ekki fallið því við búum í réttarríki og allir eru saklausir uns sekt er sönnuð. Miðað við rannsóknarskýrsluna benda allar líkur til þess að þarna séu mál sem kunni að varða við lög.

Því spyr ég hv. þm. Skúla Helgason: Er hann sannfærður um það í hjarta sínu að ríkisstjórnin sé á réttri leið með því að leyfa (Forseti hringir.) þessum aðila að fjárfesta með þessum hætti í gagnaverinu? Á þjóðin (Forseti hringir.) ekki að njóta vafans?