138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Hv. forseti. Eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni var það eitt af markmiðum okkar í iðnaðarnefnd í þessi máli að fá fram allar upplýsingar um eignarhluti einstakra hluthafa. Við sóttumst býsna fast eftir því en Novator, íslenski hluthafinn, var sá eini sem sá sér fært að opinbera þessar upplýsingar. Ég harma það. Við fengum hins vegar með eftirgangsmunum upplýsingar og staðfestingar sem sannfærðu okkur um að það eru engin krosseignatengsl á milli Novators og annarra hluthafa í félaginu. Það er skjalfest í gögnum iðnaðarnefndar en þessir aðilar, annars vegar breski góðgerðasjóðurinn Wellcome Trust og hins vegar bandaríski hluthafinn General Catalyst sem stofnaði fyrirtækið með Novator, vísa báðir til þess að það er venja í Evrópu og Norður-Ameríku að einkaaðilar á markaði upplýsa ekki um smáatriði varðandi eignarhald sitt, nema (Forseti hringir.) þeir séu að fara inn á hlutabréfamarkað.