138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera nokkrar athugasemdir við fullyrðingar sem koma fram í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar. Þar er í fyrsta lagi vikið að því að áhersla hafi verið lögð á af hálfu framkvæmdarvaldsins að frumvarpið yrði afgreitt fyrir jólahlé þingsins. Þarna hlýtur að vera einhver misskilningur á ferðinni. Því fer víðs fjarri. Framkvæmdarvaldið var einmitt með yfirlýsingar um að mikilvægt væri að málið fengi vandaða málsmeðferð og hef ég eftir nefndarmönnum að málið hafi verið sent til umsagnar fyrir jól. Sjálfur var ég nú reyndar ekki á þingi, var í orlofi, en þetta staðfesta nefndarmenn sem ég hef rætt við.

Hér er rætt um Vilhjálm nokkurn Þorsteinsson fjárfesti sem er stjórnarformaður í Verne Holdings fyrirtækinu og jafnframt formaður í stýrihópi iðnaðarráðherra um orkustefnu. Af því tilefni er afar mikilvægt að það komi fram af því að hér eru miklar yfirlýsingar og dylgjur um spillingu í þingsalnum að þessi orkustefnunefnd fjallar á engan hátt um einstök orkufyrirtæki eða orkuverð. Hún fjallar almennt um orkumarkaðinn og hvernig eigi að móta heildstæða stefnu um ráðstöfun náttúruauðlinda Íslands í framtíðinni. Ég bið menn að gæta orða sinna og vera með betri málflutning en þennan ef þeir koma með ásakanir um spillingu. Ég átta mig ekki á því í hverju spillingin liggur í þessu máli. (Gripið fram í: Nei?)

Því er haldið fram að Björgólfur Thor geti í reynd og Novator beðið í 10 ár með að endurgreiða til ríkisins það sem ríkinu ber. Ég vék sérstaklega að því í framsöguræðu minni að fyrir þennan leka er tekið í sérákvæðinu sem verður gert við fjárfestingarsamninginn og mun útskýra það betur í seinna andsvari mínu.