138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

störf þingsins.

[12:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að Samfylkingin er komin í miklar ógöngur nú um stundir. Það sýnir uppnámið sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var í áðan. Við erum einfaldlega að verja fólk úti í samfélaginu fyrir því sem er borið á það úr þessum ræðustól. Það er skylda okkar þingmanna að gera það. Þessum spurningum er enn þá ósvarað: Hver segir satt og hver segir ósatt? Við þingmenn eigum kröfu á að fá að vita það og inna ráðherra eftir svörum um ákveðið málefni og þeim ber skylda samkvæmt ráðherraábyrgðarlögum að segja satt úr þessum ræðustól. Við skulum sjá hvað dagurinn ber í skauti sér. Hér hafa þungar ásakanir fallið á mikilsvirtan lögmann sem starfar hér í bæ og var falið að taka við formennsku í stjórn Seðlabankans og við skulum sjá hvort viðkomandi aðili svarar ekki fyrir sig í dag eða á morgun. En svona yfirlýsingar og að ráðherrar skuli hlaupast undan verkum sínum — það voru þrír þingmenn sem komu hér upp í gær og spurðu hæstv. forsætisráðherra út í þetta. Það var svarað með hálfgerðum dylgjum. Málin hanga enn í lausu lofti og er óljóst hver satt og hver segir ósatt. Það er ekki farið fram á meira en að við fáum botn í þetta mál: Hver gaf seðlabankastjóra loforð um að laun hans skyldu vera 1,8 millj. kr. á mánuði? Svo einfalt er það.