138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

forgangsmál ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

[13:49]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Umhverfisvernd á að vera hluti af okkar daglega lífi. Það er hlutverk stjórnvalda að auðvelda almenningi að gera umhverfisvæna hegðun að reglulegri hegðun og hún á að vera ábatasöm. Hún á að vera ábatasöm þannig að með skattlagningu stýri ríkisvaldið og sveitarstjórnir fólki, heimilum og fyrirtækjum inn á þær brautir sem stuðla að sjálfbærri þróun og sjálfbæru samfélagi og styrki umhverfisverndina. Þetta á ekki síst við um loftslagsmálin.

Hvernig er það gert, frú forseti? Það er gert með skýrri pólitískri stefnumótun sem hefur markmið sem menn eru sammála um að ná og síðan með skipulegum vinnubrögðum að þeim markmiðum. Það eru lyklarnir að árangri og þess vegna eru umhverfismálin málaflokkur hinna stóru áætlana, rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða, náttúruverndaráætlunar, aðgerðaáætlunar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og síðan — þó að það sé ekki á áætlun — sáttmála eins og Árósasáttmálans og annarrar löggjafar sem styrkir þátttöku almennings í ákvörðunum sem varða líf almennings, líf okkar hér í þessu landi og líf allra jarðarbúa, og styrkir þá það starf og þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér.

Um þessi markmið hafa íslenskir stjórnmálaflokkar deilt meira og minna til skamms tíma. Ég hygg hins vegar að þar á sé að verða grundvallarbreyting. Það er auðvitað grundvallarbreyting að hér sitji ríkisstjórn tveggja umhverfisverndarflokka, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það sést í verkum þessarar ríkisstjórnar, í stefnumótun hennar og gjörðum.