138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

kennitöluflakk.

497. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til þess að þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal og Birki Jóni Jónssyni fyrir góða umræðu um frumvarp mitt til laga um breytingar á lögum til að draga úr kennitöluflakki. Í þessari umræðu komu fram góðar ábendingar um þá erfiðleika sem geta orðið við að setja ákvæði um hversu oft fyrirtæki geta farið í gjaldþrot áður en þeim er synjað um skráningu eða þau tekin af skrá. Ég tek undir að atvinnulífið við núverandi aðstæður mun örugglega hafa sitthvað að segja um þetta frumvarp og ég vænti þess jafnframt að fram komi góðar ábendingar um hvernig hægt sé að tryggja að þeir sem eru skúrkar geti ekki stundað kennitöluflakk eins og gerst hefur allt of oft.

Enn og aftur þakka ég góða umræðu um frumvarpið og hlakka til sem formaður viðskiptanefndar að heyra umsagnir umsagnaraðila og takast á við þá gagnrýni sem fram kemur.