138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

þingsköp Alþingis.

539. mál
[16:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sú sem hér stendur er einn af flutningsmönnum þessa máls þannig að ég tek undir allt meginmálið sem kom fram í ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að við höfum rætt þessi mál hér um árabil í þinginu. Ég hef flutt mál í nokkur skipti um að við breytum stjórnarskránni þannig að menn séu ekki ráðherrar og þingmenn á sama tíma. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er einmitt á slíku máli sem ég flyt í þinginu, það er komið í gegnum fyrstu umræðu. Hins vegar er það mál þess eðlis að það er breyting á stjórnarskrá þannig að litlar líkur eru á því að menn komi því hér til afgreiðslu fyrr en vitað er nokkurn veginn hvenær næstu alþingiskosningar verða. Yfirleitt eru ekki gerðar breytingar á stjórnarskrá nema þegar menn eru á síðustu metrunum fyrir alþingiskosningar, en til að breyta stjórnarskrá þurfa tvö þing að samþykkja breytinguna til þess að breytingin taki gildi.

Það frumvarp sem ég er 1. flutningsmaður að, breyting á stjórnarskrá í þá veruna að þingmenn séu ekki ráðherrar á sama tíma, sem er tillaga sem við höfum þegar rætt hér, var komið í gegnum 1. umr. Mér finnst líklegt ef við verðum svo lánsöm að geta klárað hér frumvarpið um stjórnlagaþing fari sú tillaga til skoðunar þar af því að stjórnlagaþing á að koma með hugmyndir um breytta og betri stjórnarskrá. Það er ekki víst að það mál verði unnið neitt sérstaklega mikið hér innan dyra heldur verði því vísað til stjórnlagaþings. Hins vegar gildir svolítið annað um þetta mál. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á þingsköpum til Alþingis en ekki breytingu á stjórnarskrá þannig að við gætum klárað þetta mál.

Ég vil benda á það hér, virðulegur forseti, að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur fundið leið til þess að gera þetta að möguleika án breytinga á stjórnarskrá. Ég tel það snjallt að gera hlutina svona, að breyta þingsköpunum, en breyta þó líka stjórnarskránni þegar þar að kemur af því það er eðlilegt að svona ákvæði sé í stjórnarskrá, að hægt sé að fjalla um grundvallaraðskilnað valds í landinu, löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds.

Fyrst það er svona flókið að breyta stjórnarskránni er hægt að gera þetta þangað til stjórnarskránni verður breytt.

Verði þetta frumvarp að lögum felur það í sér að ráðherra getur sjálfur ákveðið að víkja af þinginu, ef svo má að orði komast. Þá tekur varamaður hæstv. ráðherrans sæti svo framarlega sem hæstv. ráðherra er kjörinn þingmaður. Þetta veldur því, og þar liggur meginbreytingin, að missi hæstv. ráðherra sæti sitt í ríkisstjórn á hann afturkvæmt á Alþingi. En ef einhver hæstv. ráðherra mundi víkja af Alþingi í dag og hleypa varamanni inn, ef svo má að orði komast, afsalaði hann sér sæti á þingi út kjörtímabilið. Hann á þá ekki afturkvæmt þetta kjörtímabil. Ég var oft spurð að þessu þegar ég var ráðherra í ljósi þess að ég hafði flutt tillögu um breytingu á stjórnarskrá um að ráðherrar sætu ekki á þingi á sama tíma og þeir væru þingmenn. Þá var spurt: Af hverju gerir þú þetta ekki bara sjálf? En svarið er að það er svolítið óeðlilegt að gera það vegna þess að missi viðkomandi ráðherra sæti sitt á Alþingi á hann ekki afturkvæmt það kjörtímabil. Ég lenti einmitt í því þannig að það var svo augljóst að það var ekki hægt.

Með þeirri breytingu sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er 1. flutningsmaður að, er þetta hægt.

Hvað þýðir þetta í reynd fyrir utan aðskilnað valds? Þetta þýðir að miðað við núverandi aðstæður gætu tíu hæstv. ráðherrar farið af þinginu því að það eru tveir hæstv. ráðherrar sem ekki eru kjörnir þingmenn. Það eru hæstv. dómsmálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra. Þetta er praktíska hliðin á þessu máli. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur bent á að þetta mundi kosta eitthvað. Það er rétt af því að ráðherrar mundu ekki lækka í launum með þessari breytingu heldur mundu þeir halda launum sínum og við bættust við laun þeirra tíu varaþingmanna sem verða hv. þingmenn.

Það er eitt sem þyrfti að skoða í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar, það er þetta með valdajafnvægi eða styrk stjórnmálaflokka, kraft þeirra. Breytingin felur það í sér að sá hópur sem sinnir störfum á fullu kaupi fyrir stjórnarandstöðuna helst óbreyttur því að þar eru engir ráðherrar en sá hópur sem sinnir störfum fyrir ríkisstjórnarflokkana stækkar með þessum varaþingmönnum. Við yrðum því áfram með hæstv. ráðherra úr stjórnarflokkum og svo bættust við tíu nýir hv. þingmenn frá stjórnarflokkunum. Það breytir því styrk flokkanna.

Það er því hugsanlegt að nefndin mundi vilja skoða þetta atriði sérstaklega, þ.e. hvernig hægt sé að jafna þetta og auka styrk stjórnarandstöðunnar jafnhliða. Það er ekki víst að útgjaldaaukinn yrði einungis laun nýrra þingmanna sem kæmu hérna inn heldur gæti hann orðið meiri vegna þess að menn mundu líka vilja gera stjórnarandstöðunni kleift að auka sinn styrk með einhverjum hætti. Það er bara spurning um hvernig það yrði gert. Þeir gætu auðvitað ekki tekið inn einhverja nýja þingmenn, það er ekki til umræðu, en það væri hægt að styrkja stjórnarandstöðuna að einhverju öðru leyti, með sérfræðiráðgjöf eða einhverju slíku. Þetta þyrfti allt að skoða.

Ég vil lýsa mig sammála þessu máli. Mér finnst þetta vera snjöll leið sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur fundið hér til þess að gera þetta að möguleika hið fyrsta og styð að þetta verði gert en þó með þeirri hugsun að það þarf líka að breyta stjórnarskránni. Ég mun halda því máli til streitu þangað til það verður gert, en það er vel hugsanlegt að það fari til stjórnlagaþings. Þó að maður ætli ekki að gefa einhver sérstök fyrirmæli til stjórnlagaþings finnst mér alveg borðleggjandi að fjallað yrði um þetta mál þar. Ef ég á að giska á eitthvað finnst mér afar líklegt að stjórnlagaþing mundi leggja til að þessi aðskilnaður yrði fullkominn þannig að ráðherrar gætu ekki verið þingmenn á sama tíma, þ.e. setið beggja vegna borðs hvað vald varðar.

Virðulegur forseti. Ég lýsi mig samþykka þessu máli og vona að það fái góða umfjöllun hér á Alþingi.