138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

sameining ráðuneyta.

[15:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Einu sinni sem oftar tókst hæstv. fjármálaráðherra að tala um allt annað en hann var spurður um. Það var reyndar áhugavert að heyra fyrirlestur hæstv. fjármálaráðherra um bætta stjórnsýslu frá ráðherra sem situr í ríkisstjórn sem tók upp á því að láta rannsaka eigin ráðningar í embætti í ráðuneytunum án auglýsingar. Sem sagt ríkisstjórnin virðist vera svo undrandi á eigin gjörðum að hún ætlar að láta menn um að rannsaka hvað hún er eiginlega að gera. Vonandi kemur eitthvað út úr því.

En nú mundi ég vilja gera aðra tilraun til að fá svar frá hæstv. fjármálaráðherra varðandi þessi áform um sameiningu ráðuneyta og spyrja: Verður lagt fram frumvarp á þinginu fyrir sumarið um einhverja sameiningu ráðuneyta? Ef hæstv. ráðherra nær að svara þessu væri ekki verra ef hann gæti líka útlistað hvaða sameiningar það verða.