138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

launakjör seðlabankastjóra.

[15:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst nú að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson eigi bara að fá allan þann tíma sem hann þarf í sínar Heimdallaræfingar hér.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefndi að við höfum fengið margvísleg gögn, ekki síst rannsóknarskýrslu Alþingis sem og tillögur sérstakrar nefndar undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar. Reyndar er önnur nefnd að störfum sem fjallar um lögin um Stjórnarráðið sérstaklega, sem er heldur betur ástæða til að taka til rækilegrar skoðunar og úrvinnslu, enda er það veruleikinn að mjög mörgu var og er sumpart enn þá áfátt í stjórnkerfi okkar, stjórnmálalífi og stjórnsýslu. Það hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að vera að skoða ekki síður en aðrir um þessar mundir, þær miklu brotalamir sem leiddar eru í ljós þegar þetta er greint og rakið eins og gert er í tímamótaskýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það væri áhugavert að ræða það og verður auðvitað gert og Alþingi hefur mikilvægt hlutverk með höndum, (Gripið fram í.) ekki síst sérstök nefnd um það efni.

Varðandi launamál seðlabankastjóra og ráðningu hef ég enga aðra aðkomu að því máli en þá að lögin um kjararáð heyra undir fjármálaráðherra. Annað heyrir ekki undir mig og ég hef þegar útskýrt það sem að því snýr í þessum efnum og hef engu við það að bæta. Hv. þingmaður hefur þegar átt orðastað við og spurt hæstv. forsætisráðherra út hvað þetta varðar, forsætisráðherra hefur svarað og ég get engu við það bætt. (Gripið fram í.)