138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[14:54]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans og framlagningu þessa frumvarps sem er um margt ágætismál. Maður getur velt þeirri spurningu upp af hverju þeir sem á undan okkur hafa gengið hafa ekki hert á þessum reglum og lögum sem þó eru í gildi m.a. um ráðherraábyrgð og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og fjárreiður ríkisins sem eru orðnar ára- og sumar áratugagamlar leikreglur, hvers vegna þær hafi ekki verið teknar fyrr til endurskoðunar.

Það er rétt, sem kemur fram í frumvarpinu, að gríðarlegt agaleysi hefur ríkt gagnvart fjárheimildum eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og kom fram í máli þingmannsins áðan. Þó að staðan sé að skána hvað það varðar, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, er full þörf á því að skerpa reglurnar um þessi mál og herða þær í þeim anda sem hér kemur fram. Ég hvet líka til þess að við afgreiðum ekki mál á Alþingi, sem dæmi lokafjárlög, eins og við ræddum á fundi fjárlaganefndar í hádeginu, öðruvísi en með fyrirvara um þá ábyrgð sem hvílir á þeim sem fóru með þau mál á þeim tíma, að við samþykkjum ekki mál tengd ríkisrekstrinum öðruvísi en með fyrirvara um að hægt sé að beita þeim leikreglum sem þó eru í gildi í dag og lögum varðandi ábyrgð ráðherra og forstöðumanna stofnana og starfsmanna ríkisins.