138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[16:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að koma inn á þetta með ráðherraábyrgðina aftur. Báðir hv. þm. Birkir Jón Jónsson og Kristján Þór Júlíusson hafa fært rök fyrir því að nota megi lögin um ráðherraábyrgð í þessu skyni. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson segir að það geti orðið til þess að ráðherrar noti frekar áminningartæki sem þeir hafa til að forstöðumenn haldi sig á mottunni og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson segir að lögin og viðhorf til laga um ráðherraábyrgð geti breyst vegna þess að við lifum á breyttum tímum. Það má vel vera og ég vil lýsa því yfir að ég er alveg tilbúin til að skipta um skoðun, að þetta sé of bratt, ef ég verð sannfærð um það.