138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona sannarlega að sú skoðun sem hv. þingmaður setti fram um áhrif öskugossins í Eyjafjallajökli sé rétt.

Að því er varðar hlut utanríkisráðuneytisins í að koma á framfæri jákvæðum en þó sönnum fréttum vil ég geta þess að strax frá fyrsta degi var ráðuneytið virkt í því að kalla saman hóp allra sem málið varðaði, einmitt til þess að geta miðlað réttum upplýsingum. Ekki síst eftir að málsmetandi einstaklingar á Íslandi tóku til máls með þeim hætti að erfitt var fyrir ferðaþjónustuna og orðstír lands.

Hver er skylda stjórnmálamanns? Vera trúr sannfæringu sinni og leggja fram stefnu sem viðkomandi telur að sé þjóðinni fyrir bestu. Það er þess vegna sem ég tel að það sé rétt á þessu augnabliki að keyra þessa vegferð alveg til enda. Ég vil segja það hér að það er ekki nokkur hlutur sem getur komið í veg fyrir það að við ljúkum þessu ferli, nema hugsanlega að Alþingi sem löggjafi taki í taumana. Ég á ekki von á því.

Ég tel engu máli skipta hvernig skoðanakannanir kunna að liggja nákvæmlega núna. Við vitum að Íslendingar hafa átt í erfiðum samskiptum við voldugar nágrannaþjóðir. Við sáum það að um leið og deilan um Icesave komst í algleymi féll stuðningur við umsóknina. Ástæðan var einföld. Það kom alveg skýrt fram að voldug Evrópusambandsríki höfðu stutt Breta og Hollendinga í stjórn AGS. En ef maður skoðar kannanir kemur í ljós að t.d. í þeim könnunum sem Samtök iðnaðarins hafa gert síðan árið 2000 hefur meiri hluti verið í 16 könnunum af 18. Það er bara í tveimur síðustu könnununum eftir Icesave-málið sem stuðningur féll. Það hefur alltaf verið samsvörun á milli stuðnings innan SA og almennings.

Ég sá könnun frá SA um daginn. Í þarsíðustu könnun (Forseti hringir.) var talan 29%. Hún var komin upp í 45% núna. Þannig að kannanir segja mjög lítið. Við eigum að gera það sem við teljum að sé rétt (Forseti hringir.) fyrir þjóðina, láta svo þjóðina ákveða.