138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir, ef ég skil hann rétt og ég vona að ég hafi skilið hann rétt, að hann telji það vera sannfæringu sína að Ísland eigi ekki að vera aðili að Evrópusambandinu. Ég ætla að ég hafi skilið það rétt. Ef hv. þingmaður fer að 48. gr. stjórnarskrárinnar greiðir hann atkvæði í samræmi við sannfæringu sína. Segjum nú að þjóðin greiddi atkvæði með aðild og niðurstaðan í kosningunum yrði sú að það yrði samþykkt að ganga í Evrópusambandið, vegna þess að Evrópusambandið setur kannski 500 milljónir í áróður og annað slíkt eða 1.000 milljónir eða hvað það nú er og fær fólk til að kaupa það að það eigi að ganga í Evrópusambandið. Ætlar þá hv. þingmaður að standa upp á Alþingi og greiða atkvæði með aðild gegn sannfæringu sinni? Þarf ekki að taka 48. gr. út úr stjórnarskránni áður, breyta sem sagt stjórnarskránni fyrst?