138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki bara að taka undir þakkir til formannsins í nefndinni heldur vil ég líka þakka varaformanninum, Magnúsi Orra Schram, kærlega fyrir það samstarf sem við höfum átt í nefndinni um þetta mál.

Mér heyrðist hv. þingmaður segja varðandi nefndarálit 1. minni hluta að þar með væri lagt til að breyta reglum um gjaldþol og koma einkarétti aftur á fyrir gagnkvæm tryggingafélög. Ég get ekki lesið það úr textanum en hins vegar vil ég benda á að í frumvarpinu, sem liggur núna fyrir þinginu um fjármálafyrirtæki, nýtum við okkur það einmitt að setja ekki stífar reglur um gjaldþol sparisjóða sem starfa á afmörkuðu svæði og tökum þannig undir löggjöf á Norðurlöndunum þar sem litið hefur verið svo á að þessi tegund félaga skipti það miklu máli að hægt sé að víkja frá reglunum um gjaldþol. Sú tillaga er flutt af meiri hlutanum, sem mér skilst að hv. þingmaður skrifi undir, og þess vegna skil ég ekki af hverju komi ekki til greina að skoða möguleikann á því að breyta reglum um gjaldþol fyrir gagnkvæm vátryggingafélög.

Ég bendi líka á eins og við höfum upplifað á undanförnum mánuðum að ýmsir gallar geta verið á hlutafélagaforminu og nánast má segja að hlutafélög hafi sett Ísland á hausinn. En ég heyri samt ekki neinn segja að við eigum að banna hlutafélög, alla vega væri hv. þingmaður sá fyrsti sem kæmi með þá tillögu hér fram í þinginu.

Annað sem ég nefndi líka og hv. þm. Pétur Blöndal lagði fram frumvarp um var það sem er kallað gagnsæ félög. Ef maður er með samvinnufélag sem einstaklingar geta bara átt hlut í þá er búið að girða fyrir vandann að (Forseti hringir.) vita ekki hverjir eiga félögin.

Helsti gallinn við þetta mál er að við tökum ákvörðun um að banna eitthvað án þess raunverulega (Forseti hringir.) að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem við erum að banna.