138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir spyr um hugmyndir um breytingar á lánareglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Nú er það svo að kröfur eru gerðar til hagræðingar á nánast öllum sviðum í ríkisrekstrinum. Stjórn lánasjóðsins hefur undanfarnar vikur rætt ýmsar hagræðingarhugmyndir hjá sér. Gert er ráð fyrir að útlán frá LÍN á árinu 2010 verði 16,5 milljarðar, að um 13,5 milljarðar fari í lán til námsmanna sem nýta námslán sér til framfærslu og 2,3 milljarðar til skólagjaldalána. Þarna eru stóru tölurnar. Ekki er vilji til þess að lækka framfærsluviðmið — þau voru reyndar hækkuð umtalsvert nýverið og þótti það löngu tímabært — og ef skerða ætti lán til skólagjalda verulega kæmi það sér illa fyrir marga nemendur og einnig fyrir rekstur háskóla sem byggja starfsemi sína á slíkum gjöldum.

Stjórn sjóðsins hefur því til skoðunar að fara þá leið að verja þá sem nýta sér námslán til framfærslu en finna þann hóp sem þiggur lán en nýtir það ekki sér til framfærslu. Leitað er að lausnum sem eru eins sársaukalitlar og mögulegt er fyrir þann hóp sem þarf á námslánunum að halda. Sá nemandi sem nýtir sér lánin til framfærslu þarf að skila um 20 einingum á önn. Með þeim hugmyndum sem stjórnin ræðir nú er gert ráð fyrir að lánþegi skili 18 einingum á önn. Áfram er gert ráð fyrir að í gildi verði sérúrræði vegna veikinda eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna sem upp kunna að koma í lífi námsmanna. Stjórnin hittist aftur á fimmtudaginn í hádeginu og þá verða þessi mál til umræðu en með því að skerða lán til þeirra sem ekki nýta sér námslán til framfærslu munu sparast um það bil 300 millj. kr.