138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvar hans sem að venju er málefnalegt þegar við eigum skoðanaskipti og ég treysti því að við höldum því áfram alla tíð. Ég efast ekkert um að allir þeir einstaklingar sem koma að vinnu þessa máls leggja sig fram um að ná eins góðri niðurstöðu í það og þeir vilja og ætla sér, viljinn er örugglega fyrir hendi. Það breytir ekki því að þegar ég kem að þessu sem þingmaður úr öðrum málaflokki og lít yfir þetta verk segi ég og mæli það af mikilli einlægni: Mér finnst skorta að ég geti áttað mig á þeirri sýn sem viðskiptanefndin og þetta frumvarp eiga að gefa mér af einhverri heildstæðri löggjöf sem á að taka með einhverjum hætti á þessum málum sem mér finnast brenna heitast á fólki. Hver er hin pólitíska stefnumörkun og heildarstefna varðandi fjármálakerfið? Ég hef ekki áttað mig á því í þeirri umræðu að sú heildstæða sýn liggi fyrir. Ég sagði áðan að það sem mér hefur þótt erfiðast að hlýða á eru samskipti einstakra fyrirtækja. Í gær var rætt um fimm áratuga gamalt fyrirtæki í sjónvarpinu. Forsvarsmaður þess kom og sagði þvílíka sögu af samskiptum við þetta kerfi, hann féll saman í beinni útsendingu. Hvernig ætlum við að bregðast við þessu? Tekur þetta frumvarp á slíkum veruleika? Ég segi nei, tökum stærri skref.