138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

sanngirnisbætur.

494. mál
[22:41]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um sanngirnisbætur, mál sem kallað var Breiðavíkurmál í upphafi. Ég vil koma upp örstutt til að lýsa ánægju minni með vegferð þessa máls í gegnum þingið og aðkomu allsherjarnefndar að því. Það hefur verið sómi að meðferð málsins í höndum þingsins og allsherjarnefndar og nefndin hefur tekið sérstaklega gott tillit til þeirra ábendinga sem fram komu hjá lögfræðingi og formanni Breiðavíkursamtakanna.

Þetta mál hefur verið lengi í vinnslu í embættismannakerfinu og það var ekki fyrr en hæstv. forsætisráðherra sjálf áttaði sig á því hvar það var strandað að hún tók af skarið með afgerandi hætti og leysti málið í góðri sátt við Breiðavíkursamtökin á tveimur dögum. Þetta er stóra ljósglætan í frumvarpaskógi Alþingis þessa þings, sagði einn maður við mig um daginn og ég held að það sé rétt.

Eitt sem mig langar að leggja áherslu á í þessu máli er það sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir talaði um og reifaði með svo miklum ágætum að nefndin fellst ekki á sjónarmið sem haldið er fram í greinargerðinni um að athafnir sem hafi verið í samræmi við ríkjandi stefnu á umræddum tíma geti leitt til minni bótaskyldu. Það er mjög mikilvægt og nefndin á hrós skilið fyrir afgerandi afstöðu í því máli.

Annað atriði sem er mikilvægt og ég vil tæpa á er mikilvægi svokallaðs tengiliðar vegna vistheimila.

Fjallað er um hann í nefndarálitinu og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir sérstaklega á að skv. 10. gr. skal ráðherra skipa sérstakan tengilið sem skal með virkum hætti koma á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögum. Þannig hvílir á tengiliðnum frumkvæðisskylda, gagnvart fyrrverandi vistmönnum sem og eftirlifandi börnum þeirra vistmanna sem fallið hafa frá, við að koma upplýsingum á framfæri við þá sem kunna að eiga bótarétt. Nefndin vill árétta mikilvægi þessarar frumkvæðisskyldu tengiliðarins.“

Ég er alveg sammála því að það er mjög mikilvægt að vel takist til með skipan þessa tengiliðar og að í því starfi verði einhver sem hefur þekkingu, kunnáttu og jafnvel reynslu af slíkum málum af því að flestallt það fólk sem fellur undir þessi lög á mjög erfitt með að fara yfir mál sín aftur. Það er því mjög mikilvægt að tekið verði vel á móti því og að samskipti þess við hið opinbera í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps verði góð.

Að öðru leyti þakka ég fyrir góðan framgang þessa máls og fagna því að það skuli vera komið á lokaspöl í þinginu og verði að lögum e.t.v. síðar í kvöld.