138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[23:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa dregið allan Framsóknarflokkinn inn í þetta og vil alls ekki að það líti svo út að ég sé að segja að ég sé með eitthvað betra siðferði en aðrir, ég vona að fólk skilji það ekki þannig.

Ég vil jafnframt koma því á framfæri að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir var mjög ánægð með málsmeðferðina í iðnaðarnefnd fyrir utan það að einn gestur sem okkur þótti brýnt að kæmi fyrir nefndina var ekki kallaður fyrir út af því að hann var hvorki fyrirtæki né félag en hafði þó mikla reynslu á þessu sviði og telst vera faðir internetsins. Hann hefur mikla, skýra og víðfeðma sýn á þessum heimi sem mörgum þingmönnum er e.t.v. framandi.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir einlæga ræðu. Ég hefði gjarnan viljað heyra fleiri þingmenn, alla vega einn frá hverjum flokki, eins og t.d. Vinstri grænum, ræða um þetta mál. Mér finnst miður að lokaumræða fari fram á miðnætti því að þetta er stórt og mikið mál og snertir það hvernig við ætlum að koma okkur út úr þessum hörmungum.