staða atvinnumála.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. alþingismanni Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þessa umræðu. Oft var þörf og nú var nauðsyn, en það er grátlegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra hafa nánast engin svör við þeim spurningum sem lagðar voru fram og raunverulegar engar tillögur í því atvinnuástandi sem liggur fyrir — nema þær að hann fagnar því að atvinnuleysið á Íslandi sé sambærilegt og í Evrópu. Íslendingar hafa aldrei sætt sig við atvinnuleysi og þegar fjármálaráðherra telur það ásættanlegt að hér skuli vera 9% atvinnuleysi út af því að það er 10% atvinnuleysi í Evrópu er illa komið fyrir þessari ríkisstjórn, enda hefur hún svo sem ekki gert mikið fyrir fólk. Það er ekki verið að reyna að finna ný tækifæri. Jú, skattar eru hækkaðir og aðilar ráðnir án auglýsingar inn í ráðuneytin.
Ég hef oft bent á það í ræðum að mismunurinn á almenna vinnumarkaðnum andspænis hinum opinbera er orðinn svo mikill að það er stórkostlegt vandamál. Ráðherrann fór ekkert yfir það í ræðu sinni enda fjallar þetta ekki um það. En hefur ráðherrann eitthvað spáð í það hvernig skatttekjur landsins af þessum einstaklingum sem hafa þó enn þá vinnu eiga í framtíðinni að standa undir þessu ríkisapparati sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir?
Það hefur verið notað áður og er gjarnan notað af hæstv. fjármálaráðherra að miða sig alltaf við eitthvað verra en það sem er umfjöllunarefnið. Það er dapurlegt því að auðvitað á ríkisstjórn í hverju landi ætíð að miða sig við það besta og vera framúrskarandi við þær aðstæður sem uppi eru hverju sinni. Þann dug vantar í þessa ríkisstjórn.