138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

staða atvinnumála.

[12:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Við ræðum stöðu atvinnumála og það er fyllilega réttmætt. Ég mun ekki hjóla mikið af illsku í hæstv. fjármálaráðherra út af þessu máli að öðru leyti en að benda á að frekari niðurskurður hjá hinu opinbera í fjárlögum næsta árs mun leiða til meira atvinnuleysis. Það er röng nálgun, það þarf að gera hlutina öðruvísi. Við búum við það að þetta endalausa stóriðjutal hefur engu skilað og þetta sífellda tal og hjal um erlenda fjárfestingu í orkuvinnslu er þrá eftir einhvers konar glópagulli því að arðurinn af henni rennur úr landi.

Íslendingar þurfa að virkja sína orku sjálfir, þ.e. þegar þeir ná samkomulagi um það hvar og hvað á að virkja, en þeir þurfa að gera það sjálfir. Þeir eiga ekki að láta Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stöðva sig í því og þeir eiga ekki heldur að láta Alþjóðagjaldeyrissjóðinn stöðva vegaframkvæmdir í landinu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stendur í vegi fyrir því á þeim forsendum að það þurfi að vera einkafyrirtæki sem hagnist á þeim framkvæmdum.

Hvernig hefði Ísland verið byggt upp á sínum tíma á slíkum forsendum? Það hefði aldrei verið byggt upp og það verður ekki byggt upp úr endurreisninni heldur á þessum forsendum. Þarna þarf ríkisstjórnin að bretta upp ermarnar og sýna kjark í samskiptum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að efla hér atvinnulíf.

Með einföldum reglugerðarbreytingum er hægt að skapa sennilega hátt í 3000 störf í fiskvinnslu með því einu að gera það að skilyrði að öllum veiddum afla á Íslandsmiðum verði landað á innanlandsmarkaði. Það er ekki flóknara en það. Fiskvinnsla er það sem við kunnum. Fiskur er útflutningsvara sem skapar gjaldeyri. Hvers vegna er það ekki gert? Þetta er einfalt og auðvelt í framkvæmd.

Það þarf að brjóta upp gjaldþrota fyrirtækjasamsteypur og afhenda þær starfsfólkinu frekar en að skera þær niður í frumeindir sínar. Hér eru fjölmörg stórfyrirtæki (Forseti hringir.) í vandræðum. Ég leyfi mér að nefna tvö, BM Vallá og N1, þar sem starfsfólkið gæti mjög einfaldlega leyst úr vandanum sjálft. (Forseti hringir.) Það eru fjölmörg önnur atriði sem hægt væri að tæpa á en tími gefst einfaldlega ekki til þess.