fjármálafyrirtæki.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðuinnlegg hans og samstarfið í viðskiptanefnd þegar við fjölluðum um þetta mál.
Hann minntist sérstaklega á breytingartillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til. Annars vegar um að gerð verði sú krafa að selja beri fyrirtæki í eigu bankanna innan tólf mánaða. Hins vegar að fá úr því skorið hverjir eru eigendur bankanna. Mig langar í örstuttu máli að bregðast aðeins við þessum hugmyndum og reifa skoðun mína á þessum breytingartillögum.
Í fyrsta lagi hvað varðar sölu á þeim fyrirtækjum sem bankarnir hafa umráðarétt yfir. Við í nefndinni veltum þessum tímafrestum ansi mikið fyrir okkur. Það er mín skoðun að með því að setja slíkan ramma, að segja bönkunum að innan tólf mánaða eigi þeir að selja fyrirtækin, óttast ég að bankarnir muni ekki freista þess að selja fyrirtækin fyrr heldur bíða í of langan tíma.
Það er alveg skýrt í þeim tillögum sem nefndin fjallaði um og eru lagðar til í frumvarpinu, að við gerum miklar kröfur til Fjármálaeftirlitsins um að ramminn sé skýr um það hvers konar fyrirtæki bankarnir megi taka yfir og með hvaða hætti skuli taka þau yfir, auk þess skal eignarhaldið vara sem styst.
Mig langar einnig að fjalla örstutt hér í lokin um spurninguna sem velt er upp og fá úr því skorið hverjir séu eigendur bankanna. Ég vil bara ítreka fyrri skoðun mína á þessu máli að það er erfitt fyrir okkur að fá úr því skorið hverjir eru í raun og veru eigendur bankanna þegar ekki hefur verið tekin afstaða til þeirra krafna sem eru í þrotabúið. Ríkið ákvað að kaupa ekki bankana og þar af leiðandi eru þeir í eigu kröfuhafa. Hins vegar er ekki búið að taka afstöðu til réttmæti krafna og þá er erfitt að fá úr því skorið hversu mikið hlutfall viðkomandi kröfueigandi á í bankanum. En með eignarhaldsfélögum — er þetta réttur tími, frú forseti? Afsakið. Með eignarhaldsfélögum hefur verið slitið á milli erlendra (Forseti hringir.) kröfuhafa og stýringar á bankanum og ég tel því að þar með sé markmiðinu náð.