138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:28]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum sömuleiðis.

Hvað varðar tímafrestinn á sölu fyrirtækja er nokkuð fjallað um það í nefndaráliti meiri hluta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vandkvæði eru fólgin í því að lögfesta ákveðin tímamörk“ — að mati meiri hlutans — „þar sem erfitt væri að finna eitt tímaviðmið sem ætti við um allar tegundir fyrirtækja en fyrirtæki eru mismunandi að stærð og eðli. Meiri hlutinn telur að þessi tími eigi að vera sem allra skemmstur en segja má að viðmið um sex mánuði gæti í einhverjum tilvikum verið svo skammt að hætt væri við því að eignir færu á brunaútsölu en viðmið um 1,5–2 ár væru hins vegar of langur tími en í undantekningartilvikum gæti svo langur tími átt rétt á sér.“

Þarna er okkur nokkur vandi búinn. Við teljum að með því að kveða skýrt á um þetta í nefndaráliti með vilja löggjafans kemur fram að Fjármálaeftirlitinu eru send skýr skilaboð.

Hvað varðar eigendur bankanna er málið að vissu leyti flókið. Í því viðkvæma ferli sem slitastjórnir eru í þegar tekin er afstaða til krafna og ef upplýsa á um stöðu þeirra í miðju vinnuferlinu þá er spurningin hvort kröfueigendur, sem ekki vissu af því vinnulagi fyrir fram, muni sætta sig við það. Mun það til dæmis rýra kröfur þeirra? Hver verður staða þeirra í ferlinu ef það upplýsist að búið sé að taka afstöðu til ákveðinna krafna? Þá upplýsist hverjir standa á bak við kröfurnar.

Sömuleiðis vitum við það um leið ef kröfurnar ganga kaupum og sölum. Við eigum erfitt með að koma í veg fyrir það enda eru þetta eignir á markaði. Þá er hins vegar mikilvægt að við veltum fyrir okkur: Hafa viðkomandi kröfueigendur einhverja aðkomu að rekstri bankanna? Með þeim lögum sem hér voru samþykkt síðasta sumar var tryggt að svo væri ekki. Það eru sjálfstæð eignarhaldsfélög sem halda utan um rekstur bankanna og kröfueigendur hafa ekki aðkomu að rekstri þeirra. Það er lykilatriði og hefur þegar verið tryggt.