fjármálafyrirtæki.
Virðulegi forseti. Þetta frumvarp sem við ræðum nú vekur kannski ekki endilega athygli fyrir það sem í því segir — reyndar er ýmislegt skynsamlegt mælt í þessu frumvarpi — heldur ekki síður og kannski alveg sérstaklega fyrir það sem ekki er sagt. Í fyrstu ræðu minni við þessa umræðu sagði ég að þetta frumvarp minnti á hina klassísku sögu um fjallið sem jóðsóttina tók og það fæddist lítil mús. Hér hrundi heilt bankakerfi, fjármálakerfi landsins. Mikil fyrirheit voru uppi um það af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að bregðast við þessu hruni þannig að gagni mætti koma. Síðan hófst þessi mikla undirbúningsvinna og afraksturinn er frumvarp sem tekur eiginlega ekki á þeim helstu álitamálum sem upp komu við hrun bankakerfisins. Þetta eru dálitlar lagfæringar, það er verið að pússa smíðagripinn og hefla hann til áður en búið er að ljúka við sjálfa gerðina í raun og veru, og það er megingallinn við frumvarpið.
Þetta frumvarp er ekki svar við þeirri spurningu sem vaknaði þegar fjármálakerfið hrundi. Alveg eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson sagði áðan komu upp fjölmörg mál og auðvitað eru menn ekki á eitt sáttir um lærdóminn sem þarf að draga af hruninu. Það breytir ekki því að í ýmsum atriðum er okkur alveg ljóst hverju þarf að taka á, jafnvel þótt okkur kunni að greina á um það nákvæmlega hvernig eigi að vinna í þessum efnum. Það hefur t.d. ekki verið tekið á því hvernig verkaskiptingin eigi að vera milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Strax í kjölfarið komu upp þessi sjónarmið. Ég hygg að Jännäri hafi m.a. vakið máls á því, sá finnski, að það væri eðlilegt að hyggja að sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Við tókum eftir því að í umræðunni sem fór fram á fyrstu vikunum og mánuðunum eftir bankahrunið haustið 2008 kom m.a. fram að fjölmörg álitamál hefðu komið upp í samskiptum þessara tveggja eftirlitsstofnana okkar, Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Menn getur auðvitað greint á um hvort þær gagnrýnisraddir hafi verið réttmætar eða rangar en þær komu engu að síður fram. Frá Seðlabankanum kom sú ábending að ýmislegt sem beint var að honum í þeirri gagnrýni sem þá var uppi hefði með eðlilegum hætti fremur átt að beinast gegn Fjármálaeftirlitinu.
Það er auðvitað mjög slæmt þegar einhver óvissa er uppi um hver eigi að skipta sér af og sinna þessu bráðnauðsynlega eftirliti. Eitt af því sem við höfum lært af þessu öllu saman er að þótt menn hafi kannski greint á um hve umsvifamikið eftirlitið ætti að vera er okkur öllum ljóst að þar fór ýmislegt úrskeiðis sem stjórnvöld, alþingismenn og almennir þegnar landsins höfðu gert ráð fyrir að verið væri að fylgjast með. Í raun og veru var ekki fylgst með því, kannski að einhverju leyti vegna þess að mönnum var ekki alveg ljóst hvar í eftirlitskerfi okkar þetta eftirlit ætti að fara fram. Þess vegna hefði maður gert ráð fyrir því, svo ég taki bara þetta afmarkaða dæmi, að menn tækjust á við þetta mál í þessu frumvarpi.
Ég get ekki látið hjá líða, án þess að það verði aðalmálið, að vekja athygli á þessum skemmtilega kansellístíl sem kemur fram í d-lið breytingartillagna sem liggja fyrir frá meiri hluta viðskiptanefndar. Þar segir í a-lið, þegar talað er um hugtakið „samstarf“, með leyfi virðulegs forseta:
„Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð. Foreldrar og börn teljast enn fremur aðilar í samstarfi.“
Þetta er dálítið sérkennilegt orðalag. Ég held t.d. að við gætum talað um „fólk“ í þessu sambandi. Við erum ekki í vandræðum með að skilja hugtakið „hjón“ sem þarna stendur en ef menn vildu hafa samræmi í kansellíinu velti ég fyrir mér hvort þarna hefði ekki átt að standa „aðilar í hjónabandi“. Þetta er aukaatriði en mér finnst það vera til marks um að við ættum aðeins að hyggja að því í lagasetningu okkar að víkja ekki mikið frá venjubundinni íslensku þegar við reynum að skrifa inn lög sem við, almennir þegnar þessa þjóðfélags, eigum að skilja burt séð frá því hvort við höfum gengið í gegnum lagadeildir háskólanna í landinu eða ekki.
Mig langar að vekja máls á einu atriði og beina athyglinni að því en það kemur m.a. fram í breytingartillögu frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem skipa 2. minni hluta viðskiptanefndar. Það eru hugmyndir um hversu lengi bankar geta haldið utan um rekstur einstakra fyrirtækja sem þeir hafa tekið yfir. Í mínum huga er þetta mjög mikið áhyggjuefni. Við heyrum nánast daglega umkvartanir fólks í atvinnurekstri yfir því hvernig fyrirtæki vinna sem komin eru í náðarfaðm bankanna, ríkisbankanna eftir atvikum. Það er ekki gert ráð fyrir því að þessum fyrirtækjum sé haldið í horfinu og síðan sé stefnt að sölu þeirra heldur er þetta allt saman mjög óljóst. Bankarnir virðast vera svo mikill bakhjarl fyrir þessi fyrirtæki að þau geta nánast gert hvað sem er.
Í síðustu viku kom upp tilvik vestur á Ísafirði. Þar hefur verið starfrækt árum saman myndarleg og góð blómabúð sem hefur verið mjög mikilvæg þjónusta fyrir þetta svæði á norðanverðum Vestfjörðum. Þarna hafa svo sem oft verið starfandi fleiri en ein blómabúð en þetta var stærsta blómabúðin á svæðinu. Þá gerðist það að Húsasmiðjan, sem hefur veitt ágæta þjónustu þarna árum saman og er núna í náðarfaðmi eins ríkisbankans, greindi frá því að ákveðið hefði verið að opna blómabúð undir merkjum Blómavals á Ísafirði. Þá var alveg ljóst hvernig færi með þá samkeppni sem þar var til staðar. Það getur enginn á þessu svæði att kappi við risafyrirtæki sem er undir handarjaðri eins bankanna. Eigendur þessarar blómabúðar gerðu það sem þeim bar skylda til sem ábyrgra rekstraraðila, þeir lýstu því einfaldlega yfir að þeir hættu sínum rekstri frá þessum degi. Þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir gátu aldrei att kappi við risa á þessu sviði, sem þar að auki hefur notið fullkomins stuðnings frá heilu bankakerfi. Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni.
Af þessu tilefni og mörgum öðrum hefði ég því haldið að í þeirri stefnumörkun sem þessu frumvarpi er ætlað að leggja fram hefði átt að koma fram mjög skýr stefna um það hversu lengi bankar geta haldið utan um svona rekstur, sem þar að auki gefur þeim færi á að brjóta undir sig viðkvæmt samkeppnisumhverfi vítt og breitt um landið með, að mínu mati, óeðlilegum hætti. Þetta eru lítil samkeppnissvæði og veikburða fyrirtæki eins og allt of mörg fyrirtæki víða á landinu eru. Þess vegna hefði að mínu mati verið algjört grundvallaratriði að það væri skrifað mjög skýrt inn í þennan lagatexta í fyrsta lagi hversu lengi fyrirtækin geta verið í eigu bankanna. Ég tel t.d. að 12 mánaða hugmyndin sem núna er uppi gangi fulllangt ef eitthvað er. Í öðru lagi hefði að mínu mati átt að setja inn leikreglur sem gerðu að verkum að slík fyrirtæki gætu ekki unnið í krafti þessarar óeðlilegu stöðu sem þeir hafa, verandi einhvers konar framlengdur armur viðskiptabanka síns. Þess vegna hefði þurft að setja reglur um hvernig þau gætu unnið á þessum markaði. Þetta er ekki spurning um að grípa með óeðlilegum hætti inn í viðskipti fólks. Hér væri fyrst og fremst reynt að búa til leikreglur sem gerðu að verkum að þeir sem ekki eru undir handarjaðri bankanna gætu líka átt einhverja lífsvon.
Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi atriði verði skoðuð í hv. nefnd þegar þetta mál kemur þangað aftur eftir 2. umr. svo við getum tekið afstöðu til slíkra hluta. Það sem við erum að ræða og hugsa um núna er liður í því að byggja upp heilbrigt viðskiptaumhverfi og heilbrigt samkeppnisumhverfi sem þarf að vera til staðar. Það er alveg ljóst að þar sem aðstæður eru þær að annar aðilinn hefur yfirburði og fær síðan viðbótaryfirburði vegna stuðnings bankans verður samkeppnis- og viðskiptaumhverfið aldrei eðlilegt.