fjármálafyrirtæki.
Frú forseti. Ég hygg að það sé ekki mikill meiningarmunur á milli mín og hv. þingmanns þegar kemur að sparisjóðunum. Það gleður mitt litla hjarta að við getum náð saman þar.
En ég ætla að halda áfram að ræða eignarhald fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum vegna þess að ég náði ekki svo á skömmum tíma að segja líka hvað þarf að gera. Það sem gera þarf er að skylda fjármálafyrirtæki til að vera með opinbera skrá yfir öll fyrirtæki yfir ákveðinni stærð, svo sem eins og 500 milljónir í veltu, það yrði opinber skrá. Þessi fyrirtæki skulu með ákveðnum hætti á annaðhvort þriggja eða sex mánaða fresti birta allar helstu fjárhagslegar upplýsingar. Það er einmitt með slíku gegnsæi, sem hv. ríkisstjórn kennir sig gjarnan við, sem menn ættu að vinna og ég bið viðskiptanefnd að taka einmitt svona mál til gagngerrar skoðunar.
Aftur ítreka ég að þetta er bara eitt lítið atriði í öllu því mikla verki sem eftir er en ég óttast að hæstv. ríkisstjórn sé að leggja fram frumvarp sem er bútasaumur til að friðþægja eigin samvisku en sé ekki að taka á þeim mikla vanda sem við er að glíma.
Það er ekki verið að taka heildstætt á málum. Það þýðir ekki að leggja fram frumvarp um fjármálafyrirtæki eins og að fjármálafyrirtæki séu eitthvert eyland. Við þurfum að fara í gegnum seðlabankalögin. Ég er sannfærður um að það sé rétt að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og að það hafi verið ein mestu mistökin sem hér hafa verið gerð þegar þau voru aðskilin árið 2001, ef ég man rétt. Það þarf að fara í gegnum Kauphöllina, það þarf að fara í gegnum öll lög er viðkoma fjármálafyrirtækjum. Við getum ekki afgreitt lög frá Alþingi um fjármálafyrirtæki eins og þau séu eyland.