138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:00]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir svör hennar. Það var þó eitt í ræðu hennar áðan sem ég hnaut um. Ég er henni algerlega ósammála þegar hún heldur því fram, að hugsanlega sé það orðið þannig að eignarhald á íslenskum fjármálafyrirtækjum hafi aldrei verið dreifðara. Ég óttast að ef viðskiptanefnd ætlar að vinna málið áfram á þeim grunni og líta þannig á, að ef um er að ræða þúsundir kröfuhafa, sem við vitum ekkert hverjir eru og hugsanlega sé einn þeirra með 90% eignarhald, að þá sé um breytt eignarhald að ræða. Þá held ég að við séum aftur komin á villigötur. Þá skilja menn ekki af hverju við sjálfstæðismenn höfum verið að leggja svo mikla áherslu á að það séu skýr ákvæði í lögum um dreift eignarhald á fjármálafyrirtækjum.