138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:04]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær efndi Félagið Ísland-Palestína til fjölmenns útifundar við utanríkisráðuneytið og krafðist þess að stjórnmálasambandi við Ísrael yrði slitið, sagði að mælirinn væri fullur. Ég er sammála talsmönnum á fundinum, mælirinn er fyrir löngu fullur. Hann var það fyrir rúmri hálfri öld. Síðasta atvikið átti sér stað þegar ráðist var á óvopnaða skipalest friðarsinna með vistir og hjálpargögn á leið til Gaza-svæðisins, sem kallað hefur verið stærstu fangabúðir heimsins. Þar býr ein og hálf milljón manna. Þetta er svæði sem ráðist var á í árslok 2008 og aftur í ársbyrjun 2009. Mörg hundruð óbreyttir borgarar, ófá börnin, féllu í valinn, sjúkrahús voru jöfnuð við jörðu, skólar líka og síðan hefur fólkinu verið haldið í herkví. Þegar alþjóðasamfélagið sameinast um að rjúfa þessa herkví og sendir skipalest með hjálpargögn ráðast hermenn frá Ísrael á skipin til að koma í veg fyrir að hjálpargögnin berist þurfandi fólki.

Alþingi brást þannig við að utanríkismálanefnd kom saman í gær að frumkvæði hv. þm. Birgittu Jónsdóttur til að ræða hvað við gætum lagt til málanna. Komið hafa fram tillögur innan þingsins um að við slitum stjórnmálasambandi við Ísrael. Aðrar áherslur hafa einnig verið uppi og í nefndinni leituðum við eftir samstöðu. Samstaðan er fyrir hendi vegna þess að allir fulltrúar í utanríkismálanefnd harma og fordæma þá atburði sem átt hafa sér stað. Við náðum hins vegar ekki samstöðu um orðalag í textanum en við sameinuðumst um yfirlýsingu, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúar Framsóknarflokksins og fulltrúar Hreyfingarinnar. Ég leyfi mér að lesa hana upp, með leyfi forseta:

„Meiri hluti utanríkismálanefndar fordæmir harðlega árás ísraelska hersins á tyrknesk skip í skipalest á alþjóðlegri siglingaleið með hjálpargögn til Gaza-svæðisins. Árásin er brot á alþjóðalögum. Það stríðir gegn réttlætiskennd manna að hindra með ofbeldi að hjálpargögn berist fólki í neyð. Meiri hlutinn leggur áherslu á að mannréttindasáttmálar, samþykktir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög verði virt í hvívetna í hertekinni Palestínu, á Gaza og Vesturbakkanum, að meðtalinni Austur-Jerúsalem.

Meiri hlutinn ályktar að fela utanríkisráðherra, í samráði við utanríkismálanefnd, að skipuleggja ferð til Gaza-svæðisins og að Ísland standi að því að senda hjálpargögn til að aðstoða heimamenn og sýna þannig andstöðu við herkvína sem Ísraelsmenn hafa sett á Gaza í trássi við alþjóðalög. Það er ólíðandi að í meira en hálfa öld hafi ályktanir Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar verið virtar að vettugi.

Slit á stjórnmálasambandi við Ísrael kemur alvarlega til álita og er utanríkisráðherra falið að meta, í samvinnu við aðrar þjóðir, hvaða úrræðum verði beitt sem talin eru áhrifaríkust til að knýja á um breytingar í samræmi við alþjóðalög, svo sem alþjóðlegri samstöðu um viðskiptaþvinganir eða slitum á stjórnmálasambandi við Ísrael, beri önnur úrræði ekki ávöxt.“

Þannig hljóðar ályktun meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis sem lauk fundi sínum í hádeginu. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) fyrir það hve afdráttarlaust hann hefur brugðist við þessari svívirðilegu árás á skipalestina á leið til Gaza-svæðisins, en ég leyfi mér að beina nú þeirri spurningu til hans með hvaða hætti (Forseti hringir.) hann hyggist taka á þeirri ályktun sem við beinum nú til hans. Ég tel að þessi ályktun (Forseti hringir.) skipti máli.