138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

árás ísraelsks herskips á skipalest með hjálpargögn.

[14:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn telur að í utanríkismálum eigi mannréttindi að vera leiðarljósið. Við erum mjög stolt af því að geta staðið með meiri hluta utanríkismálanefndar að þessari ályktun. Árið 1989 tókst að ná svona samstöðu, þá voru allir flokkar sammála um að senda frá sér mjög sterka yfirlýsingu. Núna gerum við það aftur en missum reyndar einn flokk fyrir borð, því miður.

Þótt Gaza sé langt í burtu eigum við að taka afstöðu. Við eigum að sýna vilja okkar og við eigum að sýna hann í verki með því að álykta. Meiri hluti utanríkismálanefndar sendi gríðarlega sterk skilaboð. Það kemur fram í ályktuninni að við ræddum t.d. um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Það er svolítið mikið sagt að viðurkenna það í texta. Ríkisstjórnin ræddi líka um slit á stjórnmálasambandi á sínum fundi. Niðurstaðan varð ekki sú að slíta stjórnmálasambandi. Hins vegar er sagt að það komi til álita þannig að það er alrangt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði áðan um að við værum skuldbundin til að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Það er ekki rétt. Allir sem lesa ályktunina sjá annað. (Gripið fram í.)

Ég tek undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan. Þessi ályktun skiptir máli. Það skiptir máli þegar þjóðþing í lýðræðisríki sendir frá sér sterk skilaboð. Ég vil nefna í því sambandi að árið 1990 hitti þáverandi forsætisráðherra Steingrímur Hermannsson Yasser Arafat í Túnis, fyrstur vestrænna forsætisráðherra. Sendiherra Ísraels mótmælti því. Jón Baldvin Hannibalsson varði Steingrím Hermannsson með því að vísa — í hvað? Jú, í ályktun Alþingis frá 1989. Svona ályktanir skipta máli. Þetta er ákall frá Alþingi til Ísraels um að nú sé nóg komið. Nú þarf að fara að laga málin, (Forseti hringir.) taka til, ná samstöðu og hætta á þeirri vegferð sem menn hafa verið á hingað til.