138. löggjafarþing — 130. fundur,  1. júní 2010.

gjaldeyrismál og tollalög.

645. mál
[19:58]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gæti nánast flutt mína fyrri ræðu aftur, því svo virðist sem hún hafi alveg farið fyrir ofan garð og neðan hjá hv. þingmanni. (SKK: Nei.) Það liggur nefnilega fyrir, eins og ég rakti í smáatriðum, allt sem í raun og veru skiptir máli hvað varðar eignarhald og stjórnun á nýju bönkunum. Ég lýsti því í smáatriðum áðan hvernig stjórnendaábyrgðin liggur og hvernig stjórnendur eru valdir. Það liggur allt saman fyrir. Það eina sem hugsanlega liggur ekki fyrir í smáatriðum er nákvæmlega hversu margar kröfur til hinna föllnu banka hafa skipt um eigendur nýlega en það hefur engin áhrif á stjórnun bankanna. Það hefur engin áhrif á viðskiptamenn bankanna. Það hefur engin áhrif á starfsmenn bankanna. Ef það truflar einhverja þingmenn mjög mikið er sjálfsagt að reyna að lina þjáningar þeirra, en ég fæ ekki séð neina ástæðu til að það trufli aðra.