138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

tjón ferðaþjónustunnar vegna hrossapestar.

[11:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál er ekki komið inn á mitt borð enn þá með beinum hætti en að sjálfsögðu fylgist ég eins og aðrir með því sem þarna er að gerast. Þetta var mikið áfall þegar ljóst varð að fresta yrði í ár Landsmóti hestamanna sem er stór atburður. Það veldur okkur að sjálfsögðu búsifjum. Það veldur mörgum tjóni sem lagt höfðu beint í kostnað og síðan heilmiklum óbeinum áhrifum sem auðvitað er erfitt að meta en snerta marga.

Segja má að það séu ýmsar búsifjarnar af þessu tagi sem á okkur lenda til viðbótar þeim erfiðleikum sem fyrir voru, svo sem eins og sýking í íslensku síldinni, eldgos og núna pest í hestum. Ekkert af þessu fáum við ráðið við og við verðum að takast á við það.

Ljóst er að málið varðar nokkur ráðuneyti. Það má segja að það sé sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, og ég veit til þess að það ráðuneyti mun skila greinargerð eða minnisblaði um þetta á næsta ríkisstjórnarfundi. Það er menntamálaráðuneytið sem fer með íþróttamál og iðnaðarráðuneytið fer með ferðamál. Tjónið sem um er að ræða má segja að sé annars vegar beint, þ.e. mótshaldarinn sjálfur og þeir sem beinlínis höfðu lagt í kostnað, sitja uppi með hann, og síðan er það umtalsvert óbeint tjón sem lendir á þeim sem notið hefðu góðs af mótshaldinu, ferðaþjónustuaðilar, flugfélög, þeir sem selja gistingu, veitingar, þjónustu o.s.frv. Ég vil ekki fara út í einhverjar yfirlýsingar um hvernig á þessu verður tekið. Það þarf að gera hér svipað og gert var í t.d. tilviki náttúruhamfaranna, að kortleggja málið og fá um það upplýsingar hvernig beint og óbeint tjón leggst á aðila. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að funda með þeim og fara yfir það en það væri ábyrgðarlaust að gefa fyrir fram út einhver fyrirheit um að ríkið geti með beinum hætti komið að því að bæta þetta tjón, a.m.k. þá hluta þess sem er meira óbeint og erfitt er að áætla.