138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef oft gagnrýnt þessa ríkisstjórn fyrir aðgerðaleysi og mál sem mér finnst að hún ætti að standa betur að. Hef ég líka gagnrýnt starfshætti Alþingis og tel að þeim mætti breyta. Ég er einnig ósammála þeirri forgangsröðun sem nú hefur verið lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég er samt ósammála félögum mínum í stjórnarandstöðunni um að hér þurfi að gera róttækar og gagngerar breytingar strax. Ég held að við ættum frekar að einbeita okkur að því að vinna öll saman að því að klára þau mál sem eru mikilvæg, hratt og örugglega. Við getum svo seinna tekið upp starfshættina og breytt þingskapalögum þannig að ásýnd Alþingis og það sem þjóðinni finnst um okkur þingmenn muni batna.

Ég mun (Forseti hringir.) þess vegna greiða fyrir góðum málum sem hér hafa verið lögð fram en um leið gagnrýna þau mál sem ég er (Forseti hringir.) andstæður efnislega.