138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[19:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um happdrætti og nefndarálit frá hv. allsherjarnefnd sem fjallaði um þetta mál. Það er reyndar ekki margt tekið fram í frumvarpinu nema það að menn vilja, til að skýra lagatextann, eingöngu hafa viðbót við núverandi lagatexta en ekki taka upp alla setninguna og ég get alveg fallist á það.

Það sem ég sakna er í fyrsta lagi umræða um á hve veikum grunni menn byggja slíka lagasetningu, þar sem nú er netið búið að taka yfir og það getur verið mjög erfitt að átta sig á því hvaðan efni er upprunnið. Ef t.d. eitthvert happdrætti eða fjárhættuspil er á netinu, sem er víst allt of mikið um, getur verið mjög erfitt að átta sig á hvaðan það kemur og einnig hvernig menn eiga að bregðast við, hvernig hægt er að stöðva það eða refsa mönnum fyrir að taka þátt í því. Þetta frumvarp fjallar reyndar meira um auglýsingar en netið er líka fullt af auglýsingum. Ég hef fengið ótaldar auglýsingar um að menn geti spilað alls konar áhættuspil á netinu. Ég kann ekki að nefna það allt saman. Ég hef að sjálfsögðu ekki tekið þátt í því en það rignir yfir mann auglýsingum og ég sé ekki að þetta frumvarp taki á því á nokkurn hátt. Mér finnst því kannski að verið sé að viðurkenna ákveðinn vanmátt.

Það sem ég kom hingað upp til að ræða aðallega eru áhrif happdrætta á spilafíkn og fíkn yfirleitt. Fíkn er vaxandi á ýmsum sviðum. Það er þetta „gamla og góða“, áfengisfíkn eða fyllirí, fyllibyttur og slík örlög. Síðan hefur komið yfir þjóðina fíkniefnafíkn — það liggur í orðinu fíkniefni — en það eru eiturlyf af ýmsum toga, reykingar o.s.frv. Einnig má nefna átfíkn, að menn verða akfeitir eða lenda í ákveðinni fíkn, og svo er það spilafíknin sem er mjög slæm og hættuleg og hefur leikið margar fjölskyldur grátt. Það er ekki minnst á það í þessu frumvarpi. Mér hefði þótt að í nefndarálitinu ætti að ræða um þessar fíknir, sérstaklega spilafíknina. Það er dálítið merkilegt að aðilar sem stunda „góð störf“, eins og háskólinn og líknarfélög ýmiss konar, hafa notað spilakassa og happdrætti sér til tekjuöflunar en um leið ala þeir á fíkninni. Þeir hafa meira að segja notað ágóðann sem þeir fá af þessari fíkniefnasölu — ef líta má þannig á að happdrætti sé fíkniefni — til að lækna sjúklinga af spilafíkn, t.d. SÁÁ. Mér finnst það eiginlega vera hámark hræsninnar eða undarlegs siðferðis að nota ágóðann af söluhappdrætti sem getur stuðlað að spilafíkn til að lækna spilafíkn.

Ég hef stundum rætt um þessi fíknimál og tel að menn beiti ansi slæmum úrræðum. Við erum með mjög sterkt eftirlit með eiturlyfjum, boð og bönn og ég veit ekki hvað. Reykingar eru reyndar leyfðar en með mjög miklum takmörkunum og áfengi sömuleiðis. Fólk með átfíkn hefur farið í dýrar og stórhættulegar aðgerðir til að laga afleiðingar offitunnar með því að stytta meltingarveginn. Það er mjög hættuleg aðgerð og eiginlega dálítið á svig við það sem raunverulega er að gerast, þ.e. að manneskjan er með fíkn og er þar af leiðandi viljalaus. Ég vildi gjarnan að hv. allsherjarnefnd ræddi þetta mál og skoðaði hvort ekki mætti leyfa fólki að afsala sér sjálfræði í einhvern tíma, segjum tvö ár, til að berjast við fíknina. Þau úrræði sem menn nota í dag eru skammtímavistun á Vogi í tíu daga, hvíldarinnlögn eða lengri meðferð sem sjúklingurinn, hinn viljalausi, getur brotið hvenær sem er. Hann getur sagt: Ég nenni þessu ekki lengur, ég er hættur. Ég ætla aftur að fara að drekka, reykja eða gera það sem fíknin kallar á. Þetta fólk hefur ekki frjálsan vilja, það er vandamálið. Mér finnst að menn ættu að horfast í augu við það og ég vildi gjarnan að dómarar fengju leyfi til að svipta menn sjálfræði í kannski tvö ár, að sjálfsögðu að beiðni viðkomandi. Hún mætti vera margítrekuð þannig að það væri alveg á hreinu að þetta væri vilji viðkomandi og hann áttaði sig á því að hann væri viljalaus gagnvart þessum fjanda sínum. Þá væri hann sviptur sjálfræði og neyddur til að halda meðferð áfram út í gegn, t.d. varðandi átfíkn að menn væru settir á þannig fæði að þeir léttust. Það er miklu hættuminna en að fara í hættulega uppskurði. Fíklum með spilafíkn væri hjálpað að vinna bug á fíkninni með sérfræðingum í ákveðinn tíma og þeir hefðu ekkert um það að segja og gætu ekki hætt við meðferðina, sem oft og tíðum er mjög dýr, hvenær sem er.

Þetta vildi ég sagt hafa af því að við erum að ræða um happdrætti. Bæði er það þessi vanmáttur ríkisvaldsins til að banna auglýsingar sem dynja yfir menn í gegnum netið erlendis frá og eins umræða um spilafíknina sem er því miður fylgifiskur happdrætta.