138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:20]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni þessi áskorunarorð. Auðvitað er það svo að með því að fjalla um málið inni í allsherjarnefnd og með því að hafa gert það í þrígang þar á síðustu fjórum eða fimm dögum er verið að taka málið til mikillar efnislegrar umræðu og að sjálfsögðu mun það að henni lokinni koma til umræðu hér í þingsal.

Hins vegar eru álitaefni uppi sem menn vilja fá frekari svör við. Það er það sem ég nefndi hér áðan varðandi afturvirkni þessara laga sem kveðið er á um í 2. gr. sem þarf sérstaklega að taka á vegna þess að fari menn í þá átt getur það skapað ríkinu umtalsverða skaðabótaskyldu. Það getur verið að þingmenn mundu samt sem áður komast að þeirri niðurstöðu að það væri ásættanleg skaðabótaskylda sem skapaðist, þ.e. að menn mundu einfaldlega vilja binda virkni laganna eða afturvirkni þeirra við eitthvert ákveðið tímabil sem miðaðist t.d. við síðustu tvö eða þrjú árin. Þá mundi ég fyrir mitt leyti vilja vita hversu háar upphæðir gæti verið um að ræða, hversu miklar skaðabætur gæti ríkinu verið dæmt að greiða, vegna þess að ég tel alveg klárt að menn þurfi að hafa fast land undir fótum áður en lengra er haldið í svo stóru máli, sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem ríkissjóður er í nú um mundir.

Ég ítreka því það sem ég hef sagt áður: Það er verið að taka málið til efnislegrar umræðu. Það hefði átt að fjalla meira um það í störfum allsherjarnefndar, ég get tekið undir það, við hefðum átt að vera komin lengra með málið. En þar hafa verið mörg risavaxin mál sem lúta að réttarstöðu skuldara og lýðræðisumbótum sem mikið er kallað eftir þannig að við verðum einfaldlega að sætta okkur við að það er ekki komið lengra. Við munum halda áfram umfjöllun þess og það mun koma til umræðu hér í þingsal.