138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get ekki orða bundist vegna ræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur áðan þegar hún var að lýsa aðdraganda lagasetningarinnar síðasta sumar um kjararáð. Hún skautaði nefnilega í máli sínu yfir eitt mikilvægt atriði en það er að kjararáð benti vissulega á að biðlaunaréttindi og eftirlaunaréttindi væru ekki á verksviði kjararáðs en einhvern veginn komst inn í frumvarpstextann þessu til viðbótar orðalagið „önnur atriði er varða fjárhagslega hagsmuni seðlabankastjórans“. Það er á grundvelli þessara orða sem lítur út fyrir að seðlabankastjóralaunin hafi verið hækkuð umfram það sem allir héldu að væri niðurstaðan eftir lagasetninguna með kjararáð. Einhvers staðar frá kom sú hugmynd að setja inn fjárhæðir um önnur atriði er varða fjárhagslega hagsmuni bankastjórans, ekki er sambærilegt orðalag varðandi aðra embættismenn. Í tillögum kjararáðs er ekki að finna tillögu að slíku orðalagi. Einhvers staðar kom það frá. Hv. þm. Helgi Hjörvar upplýsti það í blöðum í gær að það hefði komið úr forsætisráðuneytinu. Í forsætisráðuneytinu kannast enginn við það. Þegar tillagan um launahækkun seðlabankastjóra var sett fram kom það fram á fundum bankaráðsins að það væri samkvæmt tillögum úr forsætisráðuneytinu. Í forsætisráðuneytinu kannast enginn við það.

Ég vildi spyrja hv. starfandi þingflokksformann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvort þingflokkur hans sé sáttur við þau svör forsætisráðherra sem birst hafa í málinu og þau fjölmörgu misvísandi skilaboð, þau fjölmörgu misvísandi atriði sem enn á eftir að gera grein fyrir í þessu máli (Forseti hringir.) í ljósi þess að hér hafa verið haldnar miklar ræður um gegnsæi, skyldur ráðherra gagnvart þinginu o.s.frv.