138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[11:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í dag tökum við stórt og mjög mikilvægt skref til þess að tryggja fólki sem þarf á aðstoð að halda vegna fötlunar sinnar ný tækifæri til að ráða sjálft hvernig þjónustu það vill og með hvaða hætti hún verður veitt. Það er mjög mikilvægt að sjá samstöðuna sem birtist hér í dag og það er mikilvægt að við ræðum þessi mál þrátt fyrir efnahagsástand þjóðarinnar og þrátt fyrir að við stöndum í daglegu karpi um marga hluti. Ég vek athygli þingheims á því hversu mikilvægt skref við tökum hér í dag. Ég hlakka til að sjá tillöguna sem félags- og tryggingamálaráðuneytið mun leggja fram á komandi haustþingi og fylgja eftir þeim nauðsynlegu lagabreytingum sem þurfa að koma í kjölfarið. Til hamingju með daginn.