138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan og ég segi það aftur að ég er á því að standa eigi öðruvísi að fjárlagagerð hér á landi og ég er líka á því að þá gæfist meira tækifæri fyrir þingið að fylgja fjárlagagerðinni eftir. Þá á ég ekki við að þingmenn sitji með nefið ofan í dagbókum, dagbókarfærslum, kredit og debet hjá einstökum stofnunum, heldur er ég að tala um hina stóru mynd. Til þess höfum við frábærar stofnanir eins og t.d. Ríkisendurskoðun sem við getum beðið um skýrslur og við ættum að gera meira af því.

Ég hef út af fyrir sig ekki meira um þetta að segja, ég held að þá færi ég bara að endurtaka það sem ég hef áður sagt. En ég endurtek samt það sem ég sagði áðan að ég er í prinsippinu á því að lög eigi ekki að ganga út á það að ákveðin manneskja sé á einhverjum ákveðnum stað á einhverjum ákveðnum tíma nema hún sé að sinna nákvæmlega því verkefni sem hún menntunar sinnar vegna ber ábyrgð á.