138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst einmitt að ég eigi ekki að koma með leiðsögn fyrir þjóðina um hvað hún á að vilja. Ég veit hvað ég vil. Ég veit það líka að ég vil ekki taka þátt í að búa til þessa stjórnarskrá í lokuðum hóp og ætla mér og hef akkúrat nýtt mér netið til að heyra hvað það er sem fólk vill. Það er alveg rétt að það er mjög misjafnt en í grunninn er það ákaflega samþætt.

Ég held að fólk vilji í raun og veru mjög svipað samfélag og við búum í en það skortir og þráir að búa við ákveðið öryggi og langar t.d. til að upplifa að það geti treyst ráðamönnum þjóðarinnar fyrir sér og tilveru sinni. Þess vegna hefur vantað rosalega mikið upp á bæði hér og víðs vegar annars staðar að fólk taki virkan þátt í að móta samfélag sitt.

Ég sé umræðuna og fundi úti á landi, ekki bara á einum stað í einu kjördæmi heldur í hverju einasta krummaskuði landsins, sem ákveðna leið til að heyra hvað það er sem fólki finnst mikilvægt og ég held að það séu alltaf ákveðnir grunnþættir. Í raun og veru er það þannig að þegar maður talar við fólk, ekki bara á Íslandi heldur úti um allan heim, þá eru ákveðnir grunnþættir sem fólki finnast langmikilvægastir. Það eru þættir sem snúa að öryggi fjölskyldunnar og hamingju og hér hefur það t.d. verið ríkjandi að fólk er sátt við að borga skatta ef allir hafa sama aðgengi að menntun og heilbrigðismálum.

Mér finnst þetta vera orðræða sem við þurfum að fara í saman og síðan getum við sett saman stjórnlagaþing eða nefnd, eins og Njörður P. Njarðvík hefur lagt til. Ég er ekki sammála því að allir sem ég hef talað við um stjórnlagaþing vilji eða finnist þeir eiga að sitja á því. Ég held að flestir sem ég hef talað við sjái það sem opinn vettvang þar sem eigi að byrja á réttum enda, að tala við fólk.