138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður ef þingmanninum þykir það ekki nógu burðugt að sá sem hér stendur tali fyrir hönd síns flokks í þessu máli. Þannig vill til að ég er varaformaður allsherjarnefndar og talsmaður okkar í þessum málaflokki og ég tel mig tala fyrir hönd þingflokksins hvað þetta atriði snertir. Ég hef svo sem ekki farið í neina sérstaka athugun á því eða vinsældakosningu um það í þingflokknum hversu vinsælt þetta mál er meðal einstakra þingmanna en við erum tvö sem eigum sæti í allsherjarnefnd og stöndum að þessu nefndaráliti og breytingartillögum sem hér liggja fyrir og styðjum þær og það gerir þingflokkurinn.

Hvað það varðar, sem þingmaðurinn spyr um, hvort það gæti verið til sátta að fresta afgreiðslu þessa máls fram á haust — ég sé ekki í hendi mér tryggingu fyrir því að það mundi leiða til betri niðurstöðu í málinu vegna þess að ég hef ekki séð það af breytingartillögum eða hugmyndum í þessari umræðu sem gerir það að verkum að ég sé sannfærður um að það mundi tryggja framgang málsins t.d. á septemberþingi eða breiðari samstöðu. En eins og ég sagði áðan í andsvari við hv. þm. Þór Saari þá er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til að hugleiða alla fleti á því og allar hugmyndir og skoðanir sem koma fram sem geta tryggt framgang málsins þó í einhverju breyttu formi sé. Eins og ég sagði þá erum við í 2. umr. og möguleiki er á því að taka málið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr. og leita þá einhvers konar sátta sem menn kalla. Hv. þm. Þór Saari sagði reyndar að hann teldi ekki líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn yrði með í þeirri för. Það kann kannski að vera hugsað með öðrum hætti af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég útiloka auðvitað ekkert í því á þessu stigi málsins en ég sé ekki alveg fyrir mér að við mundum tryggja framgang þessa máls jafnvel þó að afgreiðslu þess yrði frestað.